„Ekki hægt að leggjast mikið lægra“

„Það var mjög óskemmtileg aðkoma hérna í morgun. Það var allt á rúi og stúi og búið að fara í allar skúffur og skápa og henda öllu á gólfið,“ segir Jóhanna Róbertsdóttir, svæðisfulltrúi Rauða krossins á Suðurlandi en í gærkvöldi eða í nótt var brotist inn á skrifstofu samtakanna í Hveragerði.

Að sögn Jóhönnu voru ekki mikil verðmæti á skrifstofunni. „Það eru engin verðmæti til að seilast eftir á skrifstofum hjá Rauða krossinum. Hér var reyndar tölva og myndavél sem var stolið en að öðru leyti sýnist okkur ekkert annað hafa verið tekið heldur þeim mun meira eyðilagt.“

Það lítur út fyrir að hurðinni að skrifstofunni hafi verið sparkað upp og þannig komst þjófurinn eða þjófarnir inn. „Mér finnst það bara mjög óskemmtilegt að fólk sé að brjótast inn hjá mannúðasamtökum. Manni finnst ekki hægt að leggjast mikið lægra heldur en að gera það,“ segir Jóhanna.

Engin vitni að innbrotinu hafa gefið sig fram en lögregla er með málið í rannsókn. Skrifstofan stendur við Austurmörk 7 og er í alfaraleið í bænum. Að sögn Jóhönnu er skrifstofan merkt og er svæðið í kring vel lýst upp.

Jóhanna segir að tjónið sé aðallega í skemmdunum á skrifstofunni. „Líka það að hér eru sjálfboðaliðar að vinna og það er farið í allt dót og hrúgað á gólf. Manni finnst þetta eitthvað svo tilgangslaust.“

Þeir sem búa yfir upplýsingum um málið geta haft samband við Lögregluna á Suðurlandi.

Skrifstofan stendur í alfaraleið við Austurmörk 7.
Skrifstofan stendur í alfaraleið við Austurmörk 7. Skjáskot af ja.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert