Þrumugarður gekk yfir Reykjanes

„Þetta var fremur óvenjulegt hjá okkur en það gekk yfir mikill þrumugarður og við sjáum það ekki oft,“ segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, en íbúar á höfuðborgarsvæðinu og víðar urðu margir hverjir varir við háværar þrumur og ljósleiftur á himni snemma í kvöld.

Mátti t.a.m. heyra háværar þrumur í námunda við höfuðstöðvar mbl.is og Morgunblaðsins við Hádegismóa í Reykjavík auk þess sem fjölmargir settu sig í samband við mbl.is og tilkynntu um þrumur og ljósleiftur yfir Kópavogi, Garðabæ, Vesturbæ Reykjavíkur og miðbænum. Þá lýsti íbúi í Áslandshverfi í Hafnarfirði, í samtali við blaðamann, miklu ljósleiftri á himni sem lýsti upp allt hverfið. Fylgdi þessu einnig haglél.

„Þetta myndaði í raun hálfgerðan vegg sem sást mjög greinilega á radar. Þrumugarðurinn fór yfir allt Reykjanesið og inn á suðurströnd landsins. Þetta er alls ekki algengt hér á Íslandi,“ segir Birta Líf í samtali við mbl.is, en þrumugarðurinn fór yfir höfuðborgarsvæðið frá klukkan 16:45 til 17:45.

Spurð hvað orsakar þetta veðurfyrirbrigði svarar hún: „Þetta er mjög líklega vegna þess að úr suðri kom kalt loft á sama tíma og landið er fremur hlýtt,“ segir Birta Líf en þessi fylking þrumuveðra myndast einkum við kuldaskil sem brjóta sér leið inn í hlýrra loft.

Aðspurð segir hún landsmenn ekki eiga von á álíka veðri á næstunni. „Þetta rauk bara yfir og nú tekur í raun hefðbundið haustveður við.“

Greint var frá því fyrr í kvöld að eldingu hafi slegið niður í námunda við Bláfjallalínu með þeim afleiðingum að henni sló út í skamma stund. Varð því, samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur, smávægileg rafmagnstruflun, en Bláfjallalína er ein af fáum loftlínum Orkuveitunnar.

Fyrri frétt mbl.is:

Háværar þrumur yfir Reykjavík

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert