Þrír af sjö hafa sagt upp í Straumsvík

Allsherjarverkfall mun hefjast 2. desember næstkomandi.
Allsherjarverkfall mun hefjast 2. desember næstkomandi. Ljósmynd/Alcan

Þrír framkvæmdastjórar af þeim sjö sem heyra undir forstjóra álversins í Straumsvík hafa sagt starfi sínu lausu á undanförnum mánuðum, samkvæmt heimildum mbl.is. Nokkur kurr er á meðal starfsmanna vegna yfirstandandi kjaradeilu við Rio Tinto Alcan.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar á þriðjudag í kjaradeilunni og verður fundurinn sá fyrsti síðan fimm verkalýðsfélög starfsmanna boðuðu til allsherjarverkfalls, sem hefjast mun 2. desember næstkomandi, takist samningar ekki fyrir þann tíma.

Sjá frétt mbl.is: Verkfall aftur boðað í Straumsvík

Gylfi Ingvarsson, formaður samninganefndar starfsmanna álversins, segir í samtali við mbl.is að vonandi verði verkfallsboðunin til þess að sátt náist í deilunni.

Starfsmenn hafa áður boðað til allsherjarverkfalls, sem hefjast átti 1. september síðastliðinn. Hins vegar ákvað samninganefndin að falla frá verkfallinu um miðjan ágúst. Sagði þá í tilkynningu frá nefndinni það væri gert vegna „ít­rekaðra full­yrðinga stjórn­enda Rio Tinto Alcan á Íslandi, að komi til alls­herj­ar­verk­falls leiði það til lok­un­ar fyr­ir­tæk­is­ins, og einnig til að fyr­ir­byggja að stjórn­end­ur RTA geti notað sam­ingaviðræður til þess“.

Sjá frétt mbl.is: Starfsmenn ISAL afboða verkfall

Margir ósáttir við afboðun verkfalls

Aðspurður hvort afboðun þess verkfalls geti dregið úr áhrifum hinnar nýju verkfallsboðunar segist Gylfi ekki telja svo vera. Þá segir hann að margir hafi verið ósáttir við afboðun verkfallsins.

„Við tókum alvarlega hótanir um að loka álverinu og féllum frá verkfallinu þá til að liðka fyrir samningaviðræðum í góðri trú. En það leiddi ekki til þess að hægt væri að ná sáttum. En það er öllum ljóst núna að þessu verkfalli verður ekki aflýst nema deilan leysist. Ef ekki verður búið að semja fyrir 2. desember kemur til vinnustöðvunar,“ segir Gylfi ákveðinn.

Hann er þó vongóður um að samningar takist fyrir þann tíma. „Ég hef bara ekki trú á öðru en menn sjái að leysa þurfi þessa deilu. Höfuðstöðvarnar úti þurfa að gera sér grein fyrir því að það er ekki hægt að keyra þetta á þessum nótum.“

Gylfi Ingvarsson formaður samninganefndarinnar.
Gylfi Ingvarsson formaður samninganefndarinnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert