„Hvers vegna er verið að skattleggja á mér legið?“

Túrtappar og dömubindi eru í efra þrepi virðisaukaskatts.
Túrtappar og dömubindi eru í efra þrepi virðisaukaskatts. Mynd/Wikipedia

Dömubindi og túrtappar komu til umræðu á Alþingi í dag en Heiða Kristín Helgadóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, spurði Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, hvort unnið væri að því að lækka virðisaukaskatt á þær vörur. „Hvers vegna er verið að skattlega á mér legið?“ spurði hún Bjarna.

Heiða Kristín vakti athygli á að virðisaukaskattur á smokka, bleiur og bleiufóður hafi verið lækkaður í aðgerðum fjármálaráðherra um að afnema vörugjöld og breyta virðisaukaskattkerfinu. Skattur á dömubindi og túrtappa hafi hins vegar verið látinn ósnertur í 24%. Spurði hún hverju þetta sætti og hvort unnið væri að því að lækka þessa skatta.

Fjármálaráðherra sagði að breytingar á virðisaukaskattkerfinu hafi verið ætlað að létta barnafjölskyldum innkaup. Kerfið yrði aldrei fullgert og alltaf væri hægt að týna til vörur sem hægt væri að færa rök fyrir því að ættu að vera í hærra eða lægra skattþrepi. Hans skoðun væri sú að halda ætti úti sterku virðisaukaskattkerfi og draga úr mun á milli þrepanna. Það muni gefa svigrúm til þess að draga úr beinum sköttum eins og tekjuskatti.

Á móti benti Heiða Kristín á að einmitt þessar vörur gætu orðið til þess að hjálpa barnafjölskyldum enda væru þær mikið notaðar af mæðrum. Spurði hún jafnframt hvort að ekki hafi staðið til að breytingar á virðisaukaskattkerfinu enduðu með því að eitt þrep stæði eftir.

Bjarni sagði að hans skoðun væri að á endanum væri aðeins eitt virðisaukaskattþrep en hann teldi hins vegar ekki stuðning við það í þinginu að sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka