Leiðandi í opinskárri umræðu

Hagaskóli - Skrekkur 2015
Hagaskóli - Skrekkur 2015 Ljósmynd Anton Bjarni Alfreðsson

Ungt fólk er ekki bara þátttakendur í umræðunni um ýmis samfélagsmál og -mein heldur líka leiðandi. Þessi hópur er ekki hræddur við að takast á við erfið og krefjandi málefni eins og fram kom á úrslitakvöldi Skrekks, árlegrar hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík, sem fram fór í Borgarleikhúsinu á mánudagskvöld.

Átta skólar kepptu til úrslita og voru nemendur ekki feimnir við að takast á við stóru málin, allt frá því hvernig við förum með jörðina okkar (Háteigsskóli) yfir í nauðganir (Foldaskóli) og síðast en ekki síst femínískt atriði Hagaskóla, sem hefur farið víða í vikunni.

Keppnin var sýnd í beinni útsendingu á Skjá einum svo Skrekkur er líka kjörið tækifæri til að ná til margra. Boðskapur í listrænum búningi á forsendum krakkanna er einhvern veginn áhrifameiri en ef sömu skilaboðum væri komið á framfæri í fyrirlestri. Hér er rætt við fulltrúa skólanna sem lentu í þremur efstu sætunum í keppninni.

Í lagi að vera með læti

Hagaskóli sló sannarlega í gegn með siguratriðinu í Skrekki en þar stóðu sextán stelpur á sviðinu og kröfðust jafnréttis í feminísku slammljóði og dansatriði. Sjö unnu baksviðs, þar af þrír strákar.

Undirbúningur hófst í september og hefur haustið því verið undirlagt undir hæfileikakeppnina en atriðið var valið framlag skólans eftir að hafa borið sigur úr býtum í undankeppninni Hrolli.

Una Torfadóttir, höfundur ljóðsins, og Katrín Lóa Hafsteinsdóttir, einn af danshöfundunum, verða fyrir svörum um atriðið.

„Skrekkur er frábært tækifæri til að koma þessum skilaboðum á framfæri. Hvar getum við annars sagt þetta þannig að allir hlusti á okkur?“ segir Katrín.

„Við vorum ekki að tileinka okkur skoðanir annarra eða tala um erfiðleika annarra. Við ákváðum bara að tala út frá okkur sjálfum og alveg beint frá hjartanu. Allt í þessu ljóði er eitthvað sem einhver í hópnum tengir við,“ segir Una en ljóst er að margir til viðbótar hafa tengt við þessi orð enda hefur mikið verið fjallað um atriðið í fjölmiðlum í vikunni.

„Ég held það sé sterk feminísk undiralda í samfélaginu núna. Það sýnir sig best í þessum netbyltingum sem hafa verið í gangi,“ segir Una og minnist á #freethenipple- og Beauty Tips-byltingarnar, en þar hafa ungar konur verið í fararbroddi.

„Konur hafa verið að átta sig á því að við megum taka pláss,“ segir Una en skilaboðin í ljóðinu eru skýr og kraftmikil. „Það er í lagi að vera með læti,“ segir Una, sem hefur lengi þurft að svara fyrir sig.

„Það hefur verið fólk í kringum mig frá því ég var ung sem hefur krafist erfiðrar umræðu af mér, bæði bekkjarfélagar og vinir, ég þurfti þegar ég var tíu ára að taka harða pólitíska umræðu, sem var alveg erfitt,“ segir hún en þetta gerðist vegna þess að móðir hennar, Svandís Svavarsdóttir alþingismaður, kom hratt og sterkt inn í pólitík á þessum tíma.

„Þegar ég var krakki var ég ekki tilbúin til að gangast við því að vera femínisti en það var líka sagt við mig sem skammaryrði,“ segir Una og Katrín tekur undir það að orðið femínisti hafi haft á sér neikvæðan stimpil en það sé að breytast.

Árbæjarskóli.
Árbæjarskóli. Ljósmynd Anton Bjarni Alfreðsson

Ekkert djók í þessu

Þær gangast sannarlega við titlinum í dag og feminísk skilaboð atriðisins eru skýr. „Það er enginn í vafa um hvað við erum að segja. Við komum inn alveg frá fyrsta punkti grafalvarlegar. Það er ekkert djók í þessu. Við meinum það sem við erum að segja. Það kemst enginn í salnum upp með það að fylgjast ekki með,“ segir Una.

Óhætt er að segja að Elsku stelpur sé ákall til stelpna en líka áminning til strákanna.

„Atriðið er ekki um stráka, það er ekki til stráka, við erum ekki að biðja þá um plássið. Við erum að krefjast þess af þeim að þeir hugsi sinn gang. Margt af ójafnréttinu er tilkomið af því að þeir vita ekki hvað þeir taka mikið pláss,“ segir Una.

„Við segjum líka í ljóðinu: „Þú skilur ekki erfiðið, þú ert ekki kona,““ segir Katrín. „Þeir upplifa ekki það sem við upplifum og það er ábyggilega erfitt að setja sig í spor stelpna,“ segir hún.

Hvernig viðbrögð hafið þið fengið frá strákum í skólanum?

„Við höfum fengið mjög mismunandi viðbrögð. Það er fullt af strákum sem ég þekki sem styðja okkur mjög mikið en svo eru auðvitað nokkrir sem skilja þetta alls ekki. Það skapaðist mjög mikil umræða þegar undankeppnin var búin og við vildum líka skapa umræðu,“ segir Katrín.

„Og um leið og þú færð viðbrögð frá „varðhundum feðraveldisins“ veistu að þú ert farin að ögra. Þessir strákar sem sitja úti í sal og finnst þetta raunverulega óþægilegt, það eru strákarnir sem eru að byrja að fá samviskubit og átta sig á því að þeir þurfa að fara að hugsa sig um. Sumir hafa viðurkennt að þeir hafi ekki skilið feminisma fyrr en nú,“ segir Una, þótt þær hafi líka fengið þau viðbrögð að þær væru kvenrembur.

„Alltaf þegar ég hef heyrt eitthvað neikvætt nota ég það á sviðinu þegar ég á að vera bálreið. Og það gerir atriðið bara sterkara,“ segir Katrín, sem hafði ekki samið dans fyrr en nú. „Þetta var erfitt í byrjun en svo small þetta. Við bara héldum alltaf áfram og ég er svo fegin að við gerðum það,“ segir Katrín en dansinn er kraftmikill og á vel við skilaboðin.

Hún byrjaði á ný í dansi fyrir um ári en var í ballett þegar hún var lítil.

„Allur þessi dans var bara saminn uppi í stofu heima hjá mér. Það er pínu ótrúlegt að við höfum síðan sýnt þetta á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu,“ segir hún.

En ætla þær að halda áfram á þessari listrænu braut?

„Alveg klárlega. Ég dýrka það að vera uppi á sviði og sýna. Mig langar mjög mikið til að halda áfram á þessari braut,“ segir Katrín.

„Þegar ég sagði fjölskyldunni minni fyrst að ég ætlaði að vera með í Skrekk héldu allir að ég ætlaði að syngja. Ég syng rosalega mikið og þau bjuggust við því en ekki að ég ætlaði að flytja feminískt slammljóð. Mér finnst gaman að koma fram, ekki síst í tónlist, ég spila á píanó og gítar og syng.“

Undirbúningurinn tók stundum á. „Við gerðum mikið af því að tala saman, gráta saman og öskra saman,“ segir Una, „og vera reiðar, og sorgmæddar og glaðar og hlæja. Það mynduðust svo sterk bönd á milli okkar. Þessi tengsl, við eigum þau, en atriðið sjálft og skilaboðin eru komin langt fyrir ofan okkur og eitthvað sem samfélagið á núna.“

Atriðið er byggt á reynslu þeirra allra og það er við hæfi að enda á síðari hluta ljóðsins „Elsku stelpur“, sem Una samdi og hópurinn flutti:

Elsku feðraveldi,

veistu, þegar þú segir mér að róa mig

og halda bara kjafti,

hveturðu mig áfram

til að öskra af öllu afli

þú getur ekki stoppað það sem þú veist að er að koma

þú skilur ekki erfiðið, þú ert ekki kona.

Þið horfið upp á sviðið og sjáið ekki stráka

og einhverjir hugsa hvar er jafn réttið í þessu?

en við viljum vita hvar er jafnréttið í öllu?

Hvar eru konur í heiminum yfir höf uð?

Það eru konur hérna, á þessu sviði, núna,

en sumir þurfa alltaf að skima eftir strákum

Við höfum barist svo lengi

fyrir ótal sjálfsögðum hlutum

að baráttan í sjálfu sér

er orðin sjálfsagður hlutur.

En við biðjum ykkur stelpur,

að halda alltaf áfram,

að gleyma ekki skiltunum

sem stóðu upp úr göngum

að gleyma aldrei konunum

sem hrópuðu í myrkri

að gleyma síst öllum stelpunum

sem voru dónar og tíkur og fyrir.

Stelpur krefjast athygli

ekki reyna að hunsa okkur.

Stelpur krefjast tækifæra

ekki reyna að hindra okkur

Stelpur krefjast virðingar

ekki reyna að stoppa okkur.

Stelpur krefjumst jafnréttis

látum ekkert stoppa okkur!

Seljaskóli.
Seljaskóli. Ljósmynd/Anton Bjarni Alfreðsson

Einsleitni ekki málið

Atriði Árbæjarskóla var sérlega áhrifamikið en það gerist í svarthvítum heimi þar sem allir eiga að vera eins. Sjálfstæður persónuleiki og tilfinningar hafa vikið fyrir hinu einsleita, gleði og sorg eiga ekki heima í þessum heimi. Allir fylgja sömu reglum, hlusta á sömu tónlistina, dansa sama dansinn og klæðast eins fötum.

Hugmyndin kom frá nemendum skólans sem höfðu verið valdir í hópinn eftir áheyrnarprufur. Alls kom 31 nemandi að uppfærslunni, 22 á sviði og níu á bak við tjöldin. Sunnudagsblaðið ræddi við tvo af nemendunum sem stigu á svið, Júlíu Hrönn Petersen, nemanda í 10. bekk og Núma Stein Möller Hallgrímsson nemanda í 9. bekk skólans.

Númi Steinn var í hlutverki nýs nemanda við skólann sem er öðruvísi en allir hinir og passar hvergi inn. Smám saman kennir hann hinum hvernig þau eigi að vera þau sjálf.

Queen á taílensku

Skilaboð verksins eru um hversu mikilvægt það er að vera maður sjálfur, hvað fjölbreytileiki lífsins sé mikilvægur og síðast en ekki síst hversu svarthvítur heimurinn væri án hans. Óhætt er því að segja að boðskapurinn sé bæði jákvæður og mikilvægur.

Í atriðinu er lag Queen, „I Want to Break Free“ sungið á taílensku, sem ljær þessu fræga lagi nýjan blæ. „Það er allt annað í atriðinu talað á bullmáli og það skilja ekki margir taílensku og þá virkaði það vel í samhenginu,“ segir Númi Steinn en það gefur atriðinu líka fjölmenningarlegan blæ en einnig er hægt að túlka það á þann hátt. Skilaboðin um að fjölbreytileikinn auðgi lífið á vel við nú í flóttamannaumræðunni.

Atriðið hefur verið í undirbúningi í nokkrar vikur og liggur mikil vinna að baki. Hópurinn bjó til atriðið frá grunni og var lögð áhersla á öfluga hópavinnu. Kristján Sturla Bjarnason, frístundaráðgjafi í skólanum, og Ásgrímur Geir Logason leiklistarkennari aðstoðuðu síðan krakkana. Mikið er lagt upp úr list- og verkgreinum í skólanum, dans er inni í stundaskrá og hægt er að velja bæði leik- og sönglist í unglingadeildinni. Árbæjarskóli fékk einmitt Menningarfána Reykjavíkurborgar í ár fyrir ríka áherslu á list- og menningarfræðslu í öllu skólastarfi og markvisst menningaruppeldi.

Númi Steinn og Júlía Hrönn hafa áhuga á að taka frekari þátt í leiklist. „Mér finnst gaman að leika og dansa og tók þátt í skólaleikritum og hef æft dans lengi og fimleika,“ segir hún.

„Ég hef aldrei æft leiklist en ég hef leikið í tveimur leiksýningum í atvinnuleikhúsi og æfði samkvæmisdans,“ segir Númi, sem er sem stendur í sýningunni Billy Elliot í Borgarleikhúsinu og tók þátt í Óvitum í Þjóðleikhúsinu.

„Það er alltaf gaman að koma fram og sýna listir sínar,“ segir Júlía og Númi tekur undir það: „Svona reynsla er mjög þroskandi.“

Heilasellur í hópefli

Seljaskóli var með magnað atriði í keppninni en í því takast nemendurnir á við vímuefnavandamál og einmanaleika en fylgst er með strák sem ákveður að reyna að flýja raunveruleikann með eiturlyfjum.

Alls voru 35 nemendur í Skrekkshóp skólans og tóku Sandra Ýr Þórðardóttir og Helena Sól Alexandersdóttir að sér að svara spurningum blaðsins. Þær eru báðar í 10. bekk og margreyndir skrekksfarar. Þetta var í þriðja sinn sem þær tóku þátt og voru þær því í sigurliði skólans í fyrra.

Hugmyndin hafði kraumað undir frá því í sumar en markvisst var unnið í atriðinu frá því í september og alveg fram á síðustu stundi við að betrumbæta.

Valið er í skrekkshópinn með áheyrnarprufum og er síðan tilkynnt á blaði vikuna á eftir hverjir komust í hópinn. Unnið var út frá tveimur lögum með Pink Floyd, „Comfortably Numb“ og „Hey You“. Atriðið var samið af nemendum í hópnum, sem sáu um alla þætti þess, þeir hönnuðu og saumuðu búningana, sáu um hár og förðun, unnu tónlist og hljóð og útsettu söng. Félagsstarfskennarinn Þórir Brjánn Ingvarsson heldur síðan utan um hópinn.

Sandra og Helena segja hvetjandi að taka þátt í Skrekk og hafa haft mjög gaman af þátttökunni. „Maður finnur fyrir því að á hverju skrekkstímabili eignast maður nýja vini og kynnist krökkunum rosalega mikið. Þetta verður mjög þéttur hópur,“ segir Sandra og er mikið lagt upp úr því að þétta raðirnar. „Við vinnum mikið með hópefli og tökum tíma í að vera í leikjum og setjast í spjallhring. Það hjálpar okkur rosalega mikið.“

Þær voru báðar í hópi dansara, „heilasellur“ í skemmtilega fríkuðum búningum. Helena hefur ekki verið í dansi undanfarið en var í djassballett og ballett þegar hún var yngri.

„Ég byrjaði í ballett þegar ég var þriggja ára og var í ballett í fimm ár,“ segir Sandra sem hefur víða komið við í dansinum síðan en hún er búin að vera í samkvæmisdansi, djassballett, bollywood-dansi, freestyle og afró.

Unnið með leikhústöfrana

Athygli vakti hversu vel leiksviðið var nýtt í atriðið skólans og allir töfrar leikhússins þar með enda var mikið unnið í öllum þáttum. Þær leggja áherslu á að allir í hópnum hafi haft áhrif á lokaútkomu atriðsins.

Strákurinn sem er í forgrunni í atriðinu á í mikilli innri togstreitu og sést greinilega á sviðinu að honum líður verulega illa. „Maður er ekkert að fara út í einhverja neyslu nema manni líði illa. Baksagan sem við hugsuðum fyrir þennan karakter var að hann væri haldinn miklu þunglyndi, væri félagsfælinn, með kvíðaröskun og með lélega sjálfsmynd,“ segir Sandra.

„Það er eitt að vera með vandamál og annað að líða illa. Það er munur þar á milli. Það er búið að opnast mikið umræðan um þunglyndi og fleira, sem er mjög jákvætt,“ segir hún en atriðið er í takt við aukna umræðu um geðræn vandamál á netinu en skemmst er að minnast #égerekkitabú þar sem fólk tjáði sig um andleg veikindi sín.

„Við vorum með karakter sem gerði það ekki heldur reyndi að flýja raunveruleikann og hverfa,“ segir Sandra og útskýrir að það sé ekki leiðin. „Það er mælt með því að segja frá og tala við einhvern sem maður treystir. Það er ekki gott að vera með á herðum sínum margra kílóa vandamál sem maður getur ekki ráðið við sjálfur.“

Þær búa að skrekksreynslunni til framtíðar. „Þetta er mjög góð reynsla, sérstaklega í því að koma fram. Þegar þú ert búinn að vera á sviði þá færðu svo mikið sjálfstraust og getur vel gert þetta aftur,“ segir Helena.

„Ég ætla mér að fara beint eftir Seljaskóla til Danmerkur í leiklistarskóla. Ég er búin að vera í leiklist síðan ég man eftir mér. Hef verið í allskyns leiklistarskólum og námskeiðum og sett upp leikrit hér og þar. Mér finnst þetta rosalega skemmtilegt og þetta er það sem mig langar að gera í framtíðinni,“ segir Sandra.

„Ég ætla mér örugglega í dans, en ég held samt að ég ætli að verða ljósmóðir að atvinnu. Það heillar mig mjög mikið,“ segir Helena.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert