„Búum öll undir einu þaki“

Parísareplin munu brotna niður og verða aftur að mold en …
Parísareplin munu brotna niður og verða aftur að mold en menn binda vonir við að árangur viðræðanna; einhugur um aðgerðir, sé til frambúðar. AFP

„Ég er náttúrlega afskaplega hamingjusöm, bæði að hafa fengið að verða vitni að þessu gerast, fylgjast með því, og auðvitað sérstaklega vegna útkomunnar; að 195 ríki sameinast um svona metnaðarfullt samkomulag er ótrúlegt.“

Þetta segir Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, um sannarlega alþjóðlegt samkomulag um aðgerðir í loftslagsmálum, sem samþykkt var í París í dag.

Frétt mbl.is: Sögulegt samkomulag í París

Bindandi samkomulag hefur reynst handan seilingar um árabil en Sigrún þakkar m.a. utanumhaldi Frakka hvernig til tókst. Ráðherrann kom heim í dag en segir að andrúmsloftið í París hafi einkennst af ótrúlegum samhug.

„Lofthjúpurinn er sameiginlega þakið okkar; við búum öll undir einu þaki. Sama hvort við erum rík eða fátæk, stór eða lítil, og það þurfa allir að skoða. Og ég segi fyrir mig að mér finnst þetta vera nýtt upphaf. Og mér finnst gaman að því, af því að ég er nú þjóðfræðingur að mennt, að þetta gerist 12.12., “ segir hún og vísar til þess að samkomulag um endalok átaka í fyrri heimstyrjöldinni var undirritað 11.11.

„Þetta eru dagsetningar til að muna,“ segir Sigrún. „Ég vil prenta þessa dagsetningu inn í huga fólks. 12.12.2015 átti sér stað sérstakur atburður í heimssögunni sem ég vona að verði eftirfylgni við, þ.e.a.s. að það séu ekki bara orðin í dag og klapp, heldur munum við öll taka höndum saman um að ná þessu markmiði, að halda okkur innan við 2 gráður í hlýnun.“

Getur farið saman við olíuvinnslu

Spurð að því hvort hún sjái fyrir sér að sá samhugur sem myndaðist í París muni skila sér inn í viðræður um önnur málefni, segir Sigrún ómögulegt að segja til um það.

„Þjóðarleiðtogarnir sýndu að þeir geta unnið saman og maður vonar að það geti orðið til þess að það verði samhugur um frið í heiminum, sem okkur finnst nú kannski mikilvægast af öllu. En hvernig sem á þetta er litið er þetta sögulegt og ég er sannfærð um það sjálf að þetta er upphaf og ég vona til hagsbóta fyrir mannkynið.“

En þessi stefnumörkun sem menn náðu saman um í París; hvernig rímar hún við frekari vinnslu jarðefnaeldsneytis, til dæmis á Drekasvæðinu?

Sigrún segir þetta tvennt geta farið saman, t.d. ef horft er til þeirrar losunar sem verður til við flutninga.

„Af því að við erum að tala um breytta heimsmynd. Þetta gerist ekki nema hugsunin breytist; hugsanahátturinn. Og þegar þú talar um olíu.. Það eru bara rannsóknir í gangi, það er ekki komið lengra. Og mér finnst mjög kjánalegt ef við förum að stoppa rannsóknir sem settar hafa verið í gang. En síðan tökum við ákvörðun þegar þær liggja fyrir um hvað við gerum,“ segir ráðherra.

„Því þetta er líka ákveðin auðlind og ennþá notum við mikið af þessari auðlind og flytjum hana langt að. Og þá er miklu hagkvæmara upp á lofthjúpinn, þakið okkar, að það sem við nýtum getum við nýtt úr landgrunninum hér. En við erum að keppa að því að nota jarðefnaeldsneyti sem minnst og helst að gera Ísland fullkomið að því leiti að við notum endurnýjanlega orku bæði á bíla og skip og bara almennt, í samgöngum. Það er okkar framtíðarsýn.“

Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra.
Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert