Ófært um Öxnadalsheiði

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Vegir frá Höfn í Hornafirði að Breiðdalsvík og frá Egilsstöðum í Mývatnssveit eru lokaðir samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Einnig eru vegirnir um Oddsskarð, Fjarðarheiði, Vatnsskarð eystra og um Vopnafjarðarheiði lokaðir.

Þæfingur og óveður er á Hellisheiði og mjög slæmt skygni. Vegfarendum er beðnir um að fara frekar um Þrengsli en þar er karpi og skafrenningur. Á Suðurlandi er víða krapi eða hálkublettir á vegum. Á Reykjanesbraut og stofnbrautir á Höfuðborgarsvæðinu eru vegir að mestu greiðfærar. Snjóþekja og skafrenningur er á Mosfellsheiði.

Vestanlands eru hálkublettir, hálka eða krapi á vegum. Hálka er á Holtavörðuheiði en hálkublettir á Bröttubrekku. Á Vestfjörðum er hálka á vegum. Í Ísafjarðardjúpi er eitthvað um hálkubletti. Flughálka er norður í Árneshrepp. Vegir á Norðvesturlandi eru yfirleitt vel færir þótt sumstaðar sé nokkur hálka, einkum á fjallvegum. Ófært er frá Ketilás í Siglufjörð. Krapi og óveður er á Þverárfjalli.

Hálka og hálkublettir eru á Norðausturlandi. Ófært og stórhríð er á Öxnadalsheiði og ekkert ferðaveður eins og er. Hálkublettir og óveður er með Norðausturströndinni.

Á Austurlandi er krapi í Fagradal. Flughálka er í Jökuldalshlíð og Hróarstungu. Búið er að opna veginn frá Breiðdalsvík til Egilsstaða en vegfarendur eru beðnir um að sýna aðgát á ferð yfir Meleyri í Breiðdalsvík vegna vatnaskemmda. En er lokað um Oddsskarð, Fjarðarheiði, Vatnsskerð eystra og frá Egilsstöðum í Mývatnssveit.

Suðausturströndin er greiðfær. Óveður er við Höfn og Kvísker.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert