Vegum lokað á Austurlandi

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Þjóðvegur 1 er lokaður frá Höfn að Fáskrúðsfirði og frá Egilsstöðum að Reykjahlíð í Mývatnssveit samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Einnig er lokað um Oddsskarð, Fagradal, Fjarðarheiði, Vatnsskarð eystra og um Vopnafjarðarheiði.

Það hefur snjóað víða um sunnanvert landið og þar er snjóþekja eða hálka á vegum. Til að mynda er snjóþekja á Hellisheiði og í Þrengslum en Reykjanesbraut og stofnbrautir á Höfuðborgarsvæðinu eru að mestu greiðfærar.

Hálkublettir og hálka eru á vegum á Vesturlandi. Þæfingur er á Bröttubrekku og víða í uppsveitum Borgarfjarðar. Flughálka er frá Bröttubrekku í Búðadal en hálka er á Holtavörðuheiði. Á Vestfjörðum er flughálka í Ísafjarðardjúpi. Þæfingur og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði og á Þröskuldum. Flughálka er á Mikladal en þungfært á Kleifaheiði og Klettshálsi.

Vegir á Norðvesturlandi eru yfirleitt vel færir þótt sumstaðar sé nokkur hálka, einkum á fjallvegum. Flughálka er í Norðurárdal. Á Norðausturlandi er hálka og hálkublettir en þæfingur á Öxnadalsheiði. Óveður er frá Kópaskeri í Bakkkafjörð, Ófært er frá Raufarhöfn og um Hálsa og Brekknaheiði.

Á Austurlandi er þjóðvegur 1 lokaður frá Höfn í Fáskrúðsfjörð og frá Egilsstöðum í Mývatnssveit. Flughálka er í Jökuldalshlíð og Hróarstungu. Suðausturströndin er greiðfært frá Höfn í Kirkjubæjarklaustur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert