Konan fannst látin í rúmi sínu

Konan hafði starfað í skólanum í rúmlega tíu ár.
Konan hafði starfað í skólanum í rúmlega tíu ár. Sigurður Bogi Sævarsson

Samkvæmt heimildum mbl.is fannst konan sem var skotin til bana á heimili sínu á Akranesi í nótt látin í rúmi sínu. Grunur leikur á að maðurinn, sem einnig fannst látinn í íbúðinni, hafi skotið hana til bana þegar hún var sofandi og því næst svipt sig lífi. 

Konan hafði starfað sem skólaliði í Grundaskóla á Akranesi í rúmlega tíu ár. Skólastjóri færði starfsfólki skólans fréttir af andláti hennar eftir hádegi í dag en áður voru þeir nemendur sem enn voru í skólanum og höfðu aldur til verið sendir heim.

Frétt mbl.is: Myrti konuna og svipti sig lífi

Sérsveitin braut sér leið inn

Líkt og kom fram á mbl.is fyrr í dag fann lögregla lík manns og konu í íbúð í fjölbýlishúsi í hádeginu í dag. Maðurinn hafði skotið konuna til bana og svipt sig lífi í kjölfarið.

Þegar konan mætti ekki til vinnu í morgun reyndi vinnuveitandi hennar að ná sambandi við hana. Eft­ir ít­rekaðar og ár­ang­urs­laus­ar til­raun­ir var haft sam­band við lög­reglu sem braut sér leið inn í búðina. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vesturlandi var sérsveitin kölluð til vegna málsins þar sem skotvopn var skráð á heimilinu. Lögregla hafði ekki þurft að hafa afskipti af manninum áður. 

Lög­reglu­menn brutu sér leið inn í íbúðina og fundu lík fólks­ins. Eng­in til­kynn­ing barst til lögreglu um skot­hvelli eða hávaða í nótt. Ekki er vitað til þess aðrir en maður­inn og kon­an hafi búið í íbúðinni. Málið er til rann­sókn­ar hjá lög­regl­unni á Vest­ur­landi. 

mbl.is hefur heimildir fyrir því að konan hafi fundist látin í rúmi sínu í íbúðinni og að grunur leiki á að maðurinn hafi skotið hana til bana þegar hún var sofandi. 

Hafði starfað í skólanum í rúm tíu ár

Hrönn Ríkharðsdóttir, skólastjóri Grundaskóla, segir að starfsfólkið ætli að halda hvert utan um annað og nemendur skólans. „Það er það sem við getum best gert núna. Við erum harmi lostin,“ segir hún í samtali við mbl.is. 600 nemendur eru í skólanum sem er annar af grunnskólum bæjarins.

Þegar atvik sem þessi koma upp vinnur skólinn eftir áætlun við áföllum og var fundurinn með starfsfólkinu liður í því. Nemendurnir voru sendir heim kl. 14 og var fundað í kjölfarið. Um fjögurleytið voru foreldrum nemenda skólans sendur tölvupóstur þar sem greint var frá andláti konunnar.

Einnig var haft samband við sjúkrahúsið á Akranesi. „Þau buðu okkur strax hjálp og við þáðum það,“ segir Hrönn. Starfsfólk sjúkrahússins veitti starfsfólki skólans áfallahjálp og á Hrönn von á áframhaldandi starfi næstu daga.

Hún gerir ráð fyrir að skólastarf geti haldið áfram með hefðbundnum hætti á morgun. „Við ætlum að gera allt sem við getum til að hlúa að krökkunum okkar og hvert öðru,“ segir Hrönn. Starfsfólkið hefur fengið sendar leiðbeiningar um hvernig mæta megi nemendunum vegna málsins.

Standa saman þegar áföll dynja yfir

„Þetta er alveg skelfilegur atburður. Það er varla hægt að lýsa þessu með orðum. Ég myndi segj að samfélagið sé harmi slegið,“ segir Eðvarð Ingólfsson sóknarprestur á Akranesi.

Áfallateymi var ræst út á vegum sjúkrahússins en hlutverk kirkjunnar var fyrst og fremst að hlúa að aðstandendum. Hin látnu áttu ekki börn saman.

„Fólki er brugðið. Þetta er á allra vitorði en hér stendur fólk saman þegar áföll dynja yfir. Það eru margir sem þekkjast vel því hér hafa kynslóðir búið fram af kynslóð. Það eru meðmæli með staðnum og hér líður fólki almennt vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert