Ákæran svertir mannorðið

Hreiðar Már Sigurðsson (t.h.) ásamt verjanda sínum Herði Felixi Harðarsyni. …
Hreiðar Már Sigurðsson (t.h.) ásamt verjanda sínum Herði Felixi Harðarsyni. Myndin er úr safni. mbl.is/Golli

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, lýsti sig saklausan af ákæru um innherja- og umboðssvik þegar mál gegn honum var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Fullyrti hann við dómara að ákæran hafi svert mannorð sitt með því að gefa í skyn að hann hefði rænt Kaupþing.

Hann er sakaður um að hafa misnotað aðstöðu sína og stefnt fé bankans í verulega hættu þegar hann lét bankann veita einkahlutafélaginu Hreiðari Má Sig­urðssyni 574 milljóna króna eingreiðslulán í ágúst 2008. Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings, er einnig ákærð fyrir hlutdeild í umboðssvikum en hún mætti ekki til þingfestingarinnar í dag.

Frétt mbl.is: Stefndi fé bankans í verulega hættu

Þegar dómari spurði Hreiðar Már út í afstöðu sína til sakarefnanna sagði fyrrverandi forstjórinn að þau væru röng og að hann væri saklaus af báðum liðum ákærunnar. Fullyrti hann að ekki ein króna af láninu sem hann fékk frá Kaupþingi hafi endað í hans vasa heldur hafa öll upphæðin runnið til ríkisins.

Geri ekki ráð fyrir hlutlægni saksóknara

Gagnrýndi Hreiðar Már embætti héraðssaksóknara, og sérstaks saksóknara sem hafði málið fyrst á sinni könnu, meðal annars fyrir að hafa komið völdum gögnum til fjölmiðla. Þannig hafi mannorð hans verið svert.

Brýndi hann fyrir Símoni Sigvaldasyni, dómara í málinu, að ganga ekki út frá því að saksóknari sýndi hlutlægni í sínum störfum. Sjálfur hafi hann lent í svo mörgum og svo alvarlegum dæmum um annað þar sem saksóknari hafi sett mál fram með ósanngjörnum og röngum hætti, þar á meðal í þessu máli.

Felld niður verði hann sýknaður í Hæstarétti

Þá vildi Hreiðar Már fá staðfest frá saksóknara það sem komið hafi fram í fjölmiðlum að ef hann verður sýknaður af ákæru um markaðsmisnotkun í Hæstarétti þá verði þetta mál látið niður falla. Staðfesti saksóknari það með þeim fyrirvara að það færi eftir forsendum sýknunnar.

Áður hefur komið fram að ákæran um innherja- og umboðssvik byggist á sakfellingu Hreiðars Más fyrir markaðsmisnotkun í Héraðsdómi Reykjavík­ur í fyrra. Hreiðar Már hafi búið yfir upplýsingum um að skráð markaðsverð hlutabréfa í Kaupþingi hafi gefið ranga mynd af verðmæti þeirra vegna markaðsmisnotkunar með hlutabréf í bankanum sem hann tók sjálfur þátt í.

Frétt mbl.is: Hreiðar ákærður fyrir innherjasvik

Því máli hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar og er niðurstöðu að vænta fljótlega. Þegar saksóknari staðfesti við hann að ákæran í málinu yrði felld niður yrði hann sýknaður í Hæstarétti sagði hann það sérstakt réttarfar og vísaði til þess að ákæran fyrir innherjasvik kæmi fram rétt fyrir niðurstöðu Hæstaréttar og að saksóknari hafi tjáð sig um hana í fjölmiðlum.

Málið verður næst tekið fyrir í byrjun nóvember en saksóknari hreyfði ekki andmælum við þeirri kröfu verjenda að rannsóknargögn málsins verði ekki lögð fyrir dóminn fyrr en þeir hafi haft kost á að kynna sér þau.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert