Saltfiskskemman klædd í Síldarvinnslulitunum

Klæðning saltfiskskemmunnar er nú sambærilegt við útlit skreiðarskemmunnar, sem skipt …
Klæðning saltfiskskemmunnar er nú sambærilegt við útlit skreiðarskemmunnar, sem skipt var um klæðningu á fyrir nokkru. Ljósmynd/ Síldarverksmiðjan

Lokið er við að skipta um klæðningu á saltfiskskemmunni svonefndu í Neskaupstað og þykir húsið nú orðið til fyrirmyndar, að því er segir í frétt á vef Síldarvinnslunnar. Klæðning skemmunnar er í Síldarvinnslulitunum og er útlit hennar nú sambærilegt útliti hinnar svonefndu skreiðarskemmu.

Húsin tvö voru farin að láta verulega á sjá en þykja nú til prýði.

Nestak hf. annaðist framkvæmdirnar við saltfiskskemmuna, sem var reist sem síldarverksmiðja á árunum 1966-1967.

Það var hlutafélagið Rauðubjörg sem byggði verksmiðjuna, sem Síldarvinnslan festi síðan kaup á árið 1973 og hóf þar saltfiskverkun árið eftir.

Saltfiskverkunin var fjölmennur vinnustaður og störfuðu þar allt að 120 manns á sumrin í nokkur ár. Skemman hýsti saltfiskverkun allt til ársins 1997 og í henni var einnig söltuð síld á árunum 1986-1997. Hin síðari ár hefur saltfiskskemman hins vegar verið nýtt sem geymsluhúsnæði, rétt eins og skreiðarskemman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert