Andlát: Þorvarður Helgason

Þorvarður Helgason.
Þorvarður Helgason.

Dr. Þorvarður Helgason, rithöfundur og fyrrverandi leikhúsgagnrýnandi Morgunblaðsins, er látinn, 86 ára að aldri. Hann fæddist í Reykjavík 18. maí 1930 og lést 7. þ.m.

Foreldrar Þorvarðar voru Ragnhildur Guðmundsdóttir, f. 1908, d. 1998, og Magnús Norðdahl, f. 1909, d. 1981. Yngri hálfsystkini Þorvarðar samfeðra eru Norma Norðdahl og Ljótur Magnússon. Þorvarður ólst upp hjá afa sínum í móðurætt, Guðmundi Helga Þorvarðarsyni, og konu hans, Nikólínu Nikulásdóttur. Þorvarður kvæntist 4. október 1958 eftirlifandi eiginkonu sinni Hilde Helgason, f. 1934. Sonur þeirra er Þorgils Nikulás.

Þorvarður varð stúdent frá MR árið 1952. Hann nam leikhúsfræði, frönsku og leikstjórn erlendis, aðallega í Vín í Austurríki, tók lokapróf í leikstjórn 1958, var síðan í nokkur ár heima á Íslandi þar sem hann vann hjá Pósti og síma og stofnaði ásamt öðrum leikfélagið Grímu og leikstýrði þar. Í seinni dvöl sinni í Vín stundaði hann ritstörf og vann að doktorsritgerð sinni í leikhúsfræðum. Hann útskrifaðist frá Universität Wien 1970.

Árið 1970 kom hann til starfa hjá Morgunblaðinu og var þar leikhúsgagnrýnandi blaðsins í allmörg ár. Sama ár hóf hann einnig kennslu við Menntaskólann við Hamrahlíð, og kenndi hann þar einkum þýsku en einnig áfanga sem tengdust leikhúsi og leiklist og setti jafnframt upp nokkur leikrit. Þá kenndi hann tilvonandi leikurum leiklistarsögu um árabil.

Fyrsta skáldsaga Þorvarðar, Eftirleit, kom út árið 1970, fleiri skáldsögur fylgdu í kjölfarið. Hann ritaði fjölda leikrita og einþáttunga fyrir útvarp, sjónvarp og svið og þýddi leikrit og skáldverk. Þorvarður var meðlimur í rithöfundafélagi og í félagi leikskálda. Hann lék eftirminnileg hlutverk í fjölda kvikmynda. Hann starfaði í nokkur sumur sem leiðsögumaður hérlendis en fór einnig með ferðalanga í ferðir til Grænlands. Seinasta áratug ævi hans var hann virkur félagi í Lífspekifélaginu og stundaði lífsspekilega fræðaiðkun.

Þorvarður var jarðsunginn í kyrrþey í gær, 19. desember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert