Hætti við lendingu vegna annarrar vélar

Flugvél tekur á loft.
Flugvél tekur á loft. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Flugvél frá Icelandair sem var á leið frá Kaupmannahöfn þurfti að hætta við að lenda á Keflavíkurflugvelli í gær vegna þess að önnur flugvél, einnig frá Icelandair, var á flugbrautinni.

Vísir greindi fyrst frá þessu.

Að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia, var um eðlilega flugumferðarstjórn að ræða og segir hann að engin hætta hafi verið á ferð.

„Það er gert ráð fyrir ákveðnum tíma sem það tekur flugvél að fara út af flugbraut og hún var aðeins lengur að fara út af. Þá var sú sem var á eftir henni beðin um að taka annan hring,“ segir Guðni.

Flugvélin sem var á brautinni var nýkomin frá Gatwick-flugvellinum í Lundúnum og lenti hún klukkan 16.09. Flugvélin frá Icelandair lenti svo klukkan 16.30 eftir að hafa lokið við hringinn.

„Þetta gerist ekki oft en þetta eru eðlileg viðbrögð vegna þess að þarna eru ýtrustu öryggisráðstafanir um að það eru aldrei tvær flugvélar á sömu flugbraut.“

Að sögn Guðna var flugvélin frá Kaupmannahöfn komin á lokastefnu og nálægt því að lenda þegar hún fékk fyrirmæli um að hækka flugið á nýjan leik.

Flugstöð Leif Eiríkssonar.
Flugstöð Leif Eiríkssonar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Flugbrautin er þriggja kílómetra löng og segir Guðni að allt að þriggja kílómetra bil hafi verið á milli vélanna tveggja. „Vélin var rétt ókomin út af braut hinum megin.“

„Á þessum háannatíma er stutt á milli lendinga,“ segir hann og bætir við að um tvær mínútur séu á milli flughreyfinga.

Málið verður ekki rannsakað. „Þetta er ekki þannig atvik að það sé rannsakað. Þetta eru bara rétt viðbrögð og eðilleg. Þarna er ekkert tilefni til rannsóknar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert