Vilja kaupa vel tamin hross

Kaupendur vilja meira og betur tamin hross.
Kaupendur vilja meira og betur tamin hross. mbl.is/Eggert

Fleiri hross voru flutt úr landi á síðasta ári en í fyrra. Frá árinu 2014 hefur aukningin verið um 7% milli ára. Á síðast ári voru 1.474 hross flutt út til 21 lands og í fyrra voru flutt út 1.360 hross. Þrátt fyrir að fleiri hross hafi verið flutt úr landi síðustu ár ná þau ekki þeim fjölda sem voru flutt úr landi árið 2009 en þá voru alls flutt út 1.588 hross. Líklegt þykir að erlendir kaupendur hafi nýtt sér veika stöðu krónunnar á þeim tíma eftir efnahagshrunið og keypt hross í ríkari mæli. 

Nokkuð jafnt hlutfall er yfirleitt milli hryssna og hesta en 739 hryssur voru fluttar úr landi, 232 stóðhestar og 503 geldingar, á síðasta ári. Ekki fékkst sundurliðun á því hvernig aldursskipting hrossanna er né hversu mörg þeirra höfðu hlotið fyrstu verðlaun í kynbótadómi, samkvæmt Worldfeng, upprunaættbók Íslenska hestsins.   

Flest hross fara til landa innan Evrópu og er Þýskaland áfangastaður flestra þeirra en alls voru 626 hross flutt þangað í ár eða um 42% af öllu hrossum sem voru flutt út á árinu. Það er sambærilegt við árin á undan. Næst á eftir eru önnur lönd á Norðurlöndunum en af þeim fara flest til Svíþjóðar, þá til Danmerkur og til Noregs. Svipaður fjöldi fer til Bandaríkjanna og Bretlands milli ára en þess má geta að tvö íslensk hross voru flutt til Aserbaídsjan.  

Eysteinn Leifsson, hrossaútflytjandi, á landsmótinu á Hólum í Hjaltadal í …
Eysteinn Leifsson, hrossaútflytjandi, á landsmótinu á Hólum í Hjaltadal í sumar.

Breytilegur kostnaður

Kostnaður við að flytja út hest frá Íslandi er á bilinu 120 til 300 þúsund krónur en dýrara er að flytja stóðhest úr landi en gelding og hryssu. Ofan á þennan kostnað greiðir kaupandinn virðisaukaskatt  af hrossinu inn í viðkomandi land, sá kostnaður er misjafn eftir löndum og reiknaður af kaupverði hestsins auk útflutningsgjalda. Í Þýskalandi er til dæmis 19% vsk en þangað hafa flest hross verið flutt út seinustu árin.

Til Bandaríkjanna er kostnaður við sóttkví ólíkt öðrum löndum. Heildarkostnaður kaupanda við að fá einn hest til nýrra heimkynna getur numið nokkur hundruð þúsund en fer þá aðallega eftir verðmæti hans eins og áður er getið, að sögn Eysteins Leifssonar hrossaútflytjanda. Á síðasta ári flutti hann út um þriðjung íslensku hrossanna. Hrossin voru á öllum aldri og verðmæti þeirra misjafnt. 

Verðbilið á hrossunum sem Eysteinn flutti út á síðasta ári er breitt allt frá nokkrum þúsundum upp í nokkrar miljónir. „Það eru alltaf nokkrir hestar sem eru seldir fyrir mjög háar upphæðir en þeir eru ekki margir,“ segir Eysteinn. Einnig er þó nokkuð um að erlendir aðilar séu að rækta hross hér heima og flytja út hross úr eigin ræktun.

„Vinda ofan af 2007“

„Markaðurinn hefur breyst að því leyti að fólk kaupir frekar hross sem eru eldri og meira tamin og ætluð í ákveðin verkefni fyrir verðandi eiganda hvort sem um reiðhest eða keppnishest er að ræða,“ segir Eysteinn spurður hvort markaðurinn hafi breyst undanfarið. Í því samhengi bendir hann á að núorðið séu færri fyrirspurnir fá erlendum kaupendum sem leita til dæmis að fyrstu verðlauna hryssum sem eru til dæmis með ákveðnar einkunnir fyrir tilteknar gangtegundir og sköpulag í kynbótadómi í þeim tilgangi að rækta sín eigin hross.

„Það má segja að við séum að vinda ofan af 2007 þegar margir keyptu jarðir og hryssur og fóru að rækta hross í stórum stíl,” segir Eysteinn ennfremur. Hann segir marga hafa áttað sig á kostnaðinum sem fylgir því að rækta, ala upp og temja hross, fleiri erlendis og hér heima hafa því snúið sér að því að kaupa frekar hesta sem vantar fremur en að reyna að rækta þá sjálf. Það er því orðið meira jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar.

Þeim fjölgar íslensku hestunum sem eru fluttir út.
Þeim fjölgar íslensku hestunum sem eru fluttir út. mbl.is/Árni Sæberg

Kaupendur dreifast meira yfir árið

„Landsmót var og er gluggi fyrir kaupendur og seljendur en þó mun meira áður því með tilkomu netsins hefur þetta gjörbreyst og landamærin eru orðin engin,“ segir Eysteinn spurður hvort fleiri hross hafi verið seld eftir landsmótið á Hólum í Hjaltadal í sumar.

Hann bendir á að þó að margir útlendingar komi á landsmót þá dreifast þeir meira yfir allt árið og koma á hina ýmsu viðburði tengda íslenska hestinum. Margir sem vilja kaupa hross geta til dæmis fylgst vel með mótum sem eru mörg hver sýnd í beinni útsendingu, þannig er mun meiri og tíðari sýnileiki á milli landa á þeim hrossum sem taka þátt í mótum/sýningum og eru jafnvel til sölu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert