Stungu af með pizzu

Lögreglan fékk tilkynningu um menn sem höfðu ekki greitt fyrir pizzu og farið af vettvangi á bifreið skömmu fyrir klukkan sex í morgun. Skömmu síðar stöðvaði lögreglan för þeirra en ökumaðurinn var undir áhrifum fíkniefna. Mennirnir viðurkenndu brot sín en voru búnir með pizzuna, segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en hún er óvenjulega löng á þessum sunnudagsmorgni.

Skömmu fyrir miðnætti var tilkynnt um bílveltu á Sæbraut við gatnamót Skeiðarvogs.  Ökumaðurinn hljóp í burtu og fannst ekki að sögn lögreglu en slökkvilið var fengið á staðinn, bæði sjúkrabíll og dælubíll.

Lögreglunni barst tilkynning um bifreið sem var ekið á öfugum vegarhelmingi á Reykjanesbraut við Kúagerði um hálfeitt í nótt. Lögreglan stöðvaði för bifreiðarinnar og reyndist konan sem ók bifreiðinni vera ölvuð.

Mjög ölvaður ökumaður ók á þrjár bifreiðar við bensínstöð í Hafnarfirði í nótt. Ökumaðurinn var handtekinn í Kópavogi og vistaður í fangaklefa en hann verður yfirheyrður síðar í dag.

Nokkrir ökumenn til viðbótar sem reyndust annaðhvort undir áhrifum fíkniefna eða áfengis voru stöðvaðir í nótt af lögreglu. Sumir reyndust bæði undir áhrifum fíkniefna og áfengis og einhverjir voru einnig próflausir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert