Dúxaði með 9,93 í meðaleinkunn

Gísli Björn Helgason dúxaði ME með 9,93 í meðaleinkunn.
Gísli Björn Helgason dúxaði ME með 9,93 í meðaleinkunn. Ljósmynd/Aðsend mynd

Gísli Björn Helgason er dúx Menntaskólans á Egilsstöðum með hæstu meðaleinkunn í manna minnum, 9,93. Hann fékk tíu í öllum áföngum nema tveimur enskuáföngum og íþróttum, þar sem hann fékk níu. Hann fékk alls átta verðlaun fyrir hin ýmsu fög ásamt ástundarverðlaunum og viðurkenningu fyrir félagsstörf. 

Gísli var sá eini í hópi útskriftarnemenda með 10 í mætingareinkunn og sat hann í nemendaráði öll þrjú námsárin. Hann er fæddur árið 1998. Hann fékk viðurkenningu fyrir námsárangur í íslensku, þýsku, stærðfræði, eðlisfræði og í raungreinum, en hann fékk 10 í öllum 20 raungreinaáföngunum.

Í samtali við mbl.is segir Gísli að galdurinn að velgengni í náminu sé að vera vel skipulagður og sýna náminu metnað. Hann gefur spannakerfinu í ME góð meðmæli en þar er hverri önn skipt í tvennt. Hann hyggur á háskólanám í haust og segir valið standa á milli umhverfis- og byggingarverkfræði eða jarðeðlisfræði. Hvort tveggja við Háskóla Íslands.

Gísli á ekki langt að sækja námshæfileikana. Systkini hans dúxuðu ME á sínum tíma, systir hans árið 2010 og bróðir hans árið 2011. Þá er faðir þeirra fyrrverandi skólameistari ME og jarðeðlisfræðingur að mennt og móðir þeirra doktor í félagsráðgjöf og lektor við Háskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert