Peter Coljin með forystu

Jón Óli Ólafsson stuttu eftir ræsingu keppninnar í gæt.
Jón Óli Ólafsson stuttu eftir ræsingu keppninnar í gæt. Ljósmynd/

Kaliforníubúinn Peter Coljin leiðir einstaklingskeppni WOW Cyclothon á öðrum degi keppninnar. Keppendur lögðu af stað frá Borgarnesi klukkan sex í gærkvöldi og er því nóg eftir. Hjóla keppendur 1358 kílómetra í kring um landið á undir 84 tímum.

Peter er langfremstur með um 50 kílómetra forskot en um klukkan tvö í dag var hann staddur miðja leið milli Mývatns og Egilsstaða eða rúma 450 kílómetra inn í keppnina. Á eftir honum er Jakob Dovrak frá Austurríki sem þá var að nálgast Mývatn. Jón Óli Ólafsson fylgir honum fast á eftir ásamt Michael Glass.

Leið þeirra liggur nú austur í land, yfir Öxi og svo um þjóðveg eitt um suðurland. Þá tekur við endaspretturinn fram hjá Þorlákshöfn, yfir Krísuvíkurveg og að Hvaleyrarvatni þar sem búist er við fyrstu keppendum í einstaklingskeppni í mark um miðjan dag á föstudag.

Fjáröflun WOW Cyclothon hefur gengið vel og var upphæðin komin upp í fimm milljónir í hádeginu í dag. Í ár er söfnun til styrktar Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu. Fjáröflunin er í formi áheitakeppni þar sem mörg liðanna hafa sett sér há markmið. Þar að auki fær sigurliðið í verðlaun flug með WOW air fyrir alla liðsfélaga.

Í fyrsta sæti fjáröflunarkeppninnar er lið CCP með yfir milljón króna safnaðar. Þar á eftir kemur Team UPS Ísland með tæpar 300.000 krónur og í þriðja sæti Team Vörður með tæpar 150.000 krónur. Á eftir þremur efstu liðunum er styttra á milli liða en tíu lið hafa safnað meira en 100.00 krónum og 27 lið meira en 50.000 krónum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert