Rimantas Rimkus bjó í bíl sínum

Rimantas Rimkus.
Rimantas Rimkus. Ljósmynd/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu bíður eftir að fá í hendurnar farsímagögn sem kynnu að gefa vísbendingar um hvar Rimantas Rimkus er að finna.

Ekkert hefur spurst til Rimkus, sem er 38 ára, frá því um síðustu mánaðamót.

Heimir Ríkharðsson lögreglufulltrúi segir óvíst hvenær farsímagögnin berist en að það sé forgangsmál að fá þau sem allra fyrst.

Önnur leit ekki farið fram

Leitað var að Rimkus, sem er 38 ára, þangað til klukkan eitt í fyrrinótt og tóku um 100 björgunarsveitarmenn þátt. Leitað var í nágrenni bíls hans sem fannst við Stekkjarbakka. Önnur leit mun ekki fara fram fyrr en lögreglan hefur meira í höndunum sem kann að varpa ljósi á hvarfið.

Að sögn Heimis var bíllinn búinn að vera lengi við Stekkjarbakka og hafði Rimkus búið í bílnum í einhverjar vikur. Tæknideild lögreglunnar hefur bílinn núna til rannsóknar. 

Margar vísbendingar borist

„Við erum að ræða við ættingja og vini og erum að reyna að fá upplýsingar um hvaða staði við gætum kannað,“ segir hann og áréttar að ekkert bendi til þess að neitt saknæmt hafi gerst.

Aðspurður segir hann að fólk hafi verið duglegt að senda lögreglunni vísbendingar vegna málsins en þær hafi ekki leitt til neins enn þá.

Rim­antas er 187 sm á hæð, 74 kg og með dökkt stutt hár. Þeir sem geta veitt upp­lýs­ing­ar um ferðir Rim­antas eru beðnir um að hafa sam­band við lög­reglu í síma 112. Upp­lýs­ing­um má einnig koma á fram­færi í einka­skila­boðum á Fés­bók­arsíðu lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert