Þétt og mikil umferð til borgarinnar

Umferð við Hólmsá á leið til Reykjavíkur
Umferð við Hólmsá á leið til Reykjavíkur mbl.is/Árni Sæberg

Umferð til borgarinnar er mjög þétt og á að líkindum eftir að aukast frekar nú seinni partinn samkvæmt upplýsingum frá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Umferð hefur þó gengið vel í umdæminu og hafa ekki orðið nein umferðaróhöpp það sem af er degi.

Þá hefur enginn verið tekinn fyrir ölvunarakstur í umdæminu í dag en nokkrir hafa verið stöðvaðir fyrir of hraðan akstur.

„Við erum búnir að vera duglegir að mæla og kanna með ökumenn,“ segir Hannes Guðmundsson hjá umferðardeild lögreglunnar í samtali við mbl.is. Ekki hafa myndast neinar umferðarteppur á leið til borgarinnar þó að umferð sé þétt bæði um Suðurlands- og Vesturlandsveg.

„Þegar umferðin er svona þétt er líka ekki mikið svigrúm til þess að vera í framúrakstri, það er kannski það jákvæða við þétta umferð,“ bætir Hannes við. Þolinmæði og tillitssemi séu númer eitt, tvö og þrjú í umferðinni svo allir komist heilir heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert