„Ég er ósammála biskupi“

Davíð Þór Jónsson.
Davíð Þór Jónsson. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Séra Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur í Laugarneskirkju, er ekki sammála ummælum Agnesar M. Sig­urðardótt­ur, bisk­ups Íslands. Agnes sagði í Morgunblaðinu í dag að siðferðislega væri ekki rétt að stela gögnum og fara á bak við fólk til að af­hjúpa mál og leiða sann­leik­ann í ljós.

Ég er ósammála biskupi en ég virði rétt hennar til að tjá persónulegar skoðanir sínar,“ segir Davíð Þór í samtali við mbl.is. Hann bætir því við að það sé hættulegt að teikna ummælin upp sem skoðanir kirkjunnar, því hún sé samfélag þeirra sem henni tilheyra.

„Það er samfélag fólks með alls konar og ólíkar skoðanir.

Spurður hvort það sé slæmt að yfirmaður þjóðkirkjunnar skuli tjá sig um slíkt mál með þessum hætti segir Davíð að Agnes sé ekki búin að svipta sig málfrelsinu með því að vera biskup.

Ég sé ekki betur en að hún hefji orð sín á „mér finnst“. Það hlýtur hvaða Íslendingur sem er að hafa rétt til að segja sína skoðun, ég tala nú ekki um þegar setningin byrjar svona. Það er ekki eins og hún segi „afstaða kirkjunnar í málinu er sú að...““ segir Davíð Þór.

Hann kveðst telja að skoðanir biskups rími ekki við meirihluta fólks sem starfar í þjóðkirkjunni. „Ég hef það á tilfinningunni, þó að ég hafi ekkert fyrir mér í því annað en það sem ég hef heyrt frá kollegum í dag, að skoðanir biskups séu í minnihluta meðal kirkjufólks,“ segir Davíð Þór og ítrekar í lokin að kirkjan sé ekki prestarnir eða embættisfólk sem henni tilheyrir:

„Ég vil benda á að fólk er oft að spyrja hvað segir kirkjan? Kirkjan er ekki prestarnir, ekki vígðir þjónar hennar. Kirkjan er fólkið sem tilheyrir henni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert