Aukin framlög til heilbrigðismála

Bjarni Benediktsson kynnir fjárlagafrumvarp fyrir árið 2018.
Bjarni Benediktsson kynnir fjárlagafrumvarp fyrir árið 2018. mbl.is/Eggert

Aukin framlög verða til heilbrigðismála á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár, sem verið er að kynna. Gert er ráð fyrir að 8,5 milljörðum verði bætt við sjúkrahúsþjónustu, borið saman við fjárlög þessa árs, 1,9 milljörðum verði bætt við hjá heilsugæslu og 4,2 milljörðum til lyfjakaupa.

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2018

Að auki verða niðurgreiðslur á tannlæknakostnaði aldraðra og örorkulífeyri auknar og sérstakt framlag verður veitt til þjónustu við þolendur kynferðisbrota utan höfuðborgar­svæðisins.  Segir fjármálaráðuneytið, að heildarhækkun framlaga til heilbrigðismála milli fjárlaga 2017 og 2018 nemi ríflega 21 milljarði króna.

Útgjöld til barnabóta hækka um tæplega 1 milljarð króna frá árinu 2017, í 10,5 milljarða úr 9,6 mörðum. Framlög vegna fæðingarorlofs hækka um rúmlega 1 milljarð króna og frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyris­þega verður hækkað í upphafi árs 2018 úr 25.000 kr. í 100.000 kr. á mánuði, sem eykur útgjöld um 1,1 milljarð. 

Þá verða framlög til háskóla og framhaldsskólastigs hækkuð um 3,8 milljarða, framlög til samgöngu og fjarskiptamála um 3,6 milljarða, framlög til umhverfismála um 1,7 milljarða og fjárframlag vegna frítekjumarks aldraðra um 1,1 milljarð króna.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra sagði, þegar hann kynnti fjárlagafrumvarpið í morgun, að allt benti til þess, að þjóðarbúið hafi náð toppi hagsveiflunnar. Ekki sé útlit fyrir jafn hraðan vöxt einkaneyslu á næstu misserum og verið hafi að undanförnu en allt bendi til þess, að Ísland sé að sigla inn í tímabil þar sem verður meira jafnvægi í efnahagsmálum en verið hafi. 

Aukning á fjárframlögum í ákveðnum málaflokkum frá fjárlögum 2017.
Aukning á fjárframlögum í ákveðnum málaflokkum frá fjárlögum 2017. graf/mbl.is

Gert er ráð fyrir að afgangur af fjárlögum verði 35 milljarðar króna á næsta ári, eða 1,3% af landsframleiðslu. Er það ívið lægra en var í fjármálastefnu sem samþykkt var í vor en í samræmi við nýja fjármálastefnu, sem ríkisstjórnin mun leggja fram.  Í fjárlagafrumvarpi, sem síðasta ríkisstjórn lagði fram í september sl. var gert ráð fyrir 44 milljarða króna afgangi af rekstri ríkissjóðs. 

Gert er ráð fyrir því að tekjur ríkisins aukist á næsta ári um 26 milljarða króna, ef miðað er við áætlun fyrir afkomuna á þessa ári.  Það eru einkum skatttekjur ríkissjóðs sem hækka milli ára. Bjarni sagði, að þetta væri afleiðing þess, að Ísland hefði verið á hagvaxtarskeiði. 

Útgjöld ríkisins á næsta ári nema 818 milljörðum króna og hækka um 66 milljarða frá fjárlögum þessa árs, samkvæmt nýja fjárlagafrumvarpinu. Stærsti hluti útgjaldanna er til félags- húsnæðis- og tryggingarmála og heilbrigðismála. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert