Ríkisstjórnin leiði verðlagshækkanir

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miðflokkurinn gagnrýnir harðlega ráðstafanir ríkisstjórnarinnar sem fram koma í frumvarpi um ýmsar breytingar á lögum vegna fjárlaga sem nú liggur fyrir Alþingi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum.

Þar segir að tillögur ríkisstjórnarinnar um hækkanir á krónutöluliðum séu sérstaklega ámælisverðar. Þær ýti undir verðbólgu og gangi þvert gegn markmiðum sem sett eru fram í stjórnarsáttmála.

Fyrir vikið verði ríkið leiðandi í verðlagshækkunum. Einnig séu áform um að halda tryggingagjaldi óbreyttu þvert á samkomulag fjármála- og efnahagsráðherra við Samtök atvinnulífsins frá 2016. Jafnframt er það gagnrýnt að ráðist skuli í hækkun fjármagnstekjuskatts án þess að samtímis sé lögð til breyting á uppgjörsaðferð, þó svo að það sé tekið fram í stjórnarsáttmála.

„Margþættar hækkanir sem ríkisstjórnin boðar á krónutöluliðum eru til þess fallnar að ýta undir verðbólgu og falla illa að áformum stjórnvalda um að vera ekki leiðandi í verðlagshækkunum, áformum um afnám verðtryggingar og niðurstöðum skýrslu nefndar um leiðir til að sporna gegn sjálfvirkum vísitöluhækkunum sem forsætisráðherra skipaði í júlí 2014. Krónutöluhækkanir á borð við þær sem ríkisstjórnin boðar hafa augljós víxlverkandi áhrif til almennra verðhækkana í landinu og hafa í för með sér hækkanir verðtryggðra lána heimilanna,“ segir í nefndaráliti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, um frumvarpið.

„Þriðja minni hluta þykir sæta furðu að á tímum fordæmalausrar uppsveiflu í efnahagsmálum gangi ríkisstjórnin fram með eintómum skatta- og gjaldahækkunum og auknum álögum án þess að á móti komi engin einasta lækkun. Mestri furðu sætir þar að tryggingagjald haldist óbreytt, líkt og minnst var á í inngangi, þrátt fyrir augljóst svigrúm til lækkunar þess, vegna þverrandi atvinnuleysis og góðrar stöðu ríkissjóðs, og stríðir gegn samkomulagi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Samtök atvinnulífsins undirrituðu í janúar 2016 um lækkun þess til fyrra horfs í áföngum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert