Vilja enn heyra í vitnum að árekstrinum

Lögregla og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar tildrög slyssins á Vesturlandsvegi.
Lögregla og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar tildrög slyssins á Vesturlandsvegi. mbl.is/Valli

Nokkuð hefur verið um að fólk hafi sett sig í samband við lögreglu vegna banaslyssins sem varð á Vesturlandsvegi á mánudagskvöldið. Þetta staðfestir Kristján Ólafur Guðnason, stöðvarstjóri hjá lögreglunni í Grafarholti.

Lögregla biðlaði í gær til þeirra sem kunni að hafa orðið vitni að árekstr­in­um eða aðdrag­anda hans að hafa sam­band.

Einn maður lést og níu slösuðust, þar af fjór­ir al­var­lega, þegar tveir bílar lentu í árekstri. tveir þeirra sem slösuðust eru enn á gjör­gæslu­deild. Átta börn eru meðal þeirra sem slösuðust.  

„Það er búið að ræða við flesta þá sem hafa verið í sambandi við okkur,“ segir Kristján. Hann ítrekar þó að lögregla vilji enn heyra í þeim sem kunni að hafa orðið vitni að árekstr­in­um eða aðdrag­anda hans.

„Allar upplýsingar sem við fáum hjálpa,“ segir hann og játar því til að þær aðstoði við að byggja upp mynd af atburðarásinni, en rannsókn á tildrögum slyssins stendur enn yfir hjá lögreglu og rannsóknarnefnd samgönguslysa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert