„Tónlistin heldur mér ungum“

Friðrik Karlsson á góðri stundu í Prag með sambýliskonu sinni, …
Friðrik Karlsson á góðri stundu í Prag með sambýliskonu sinni, Laufeyju Birkisdóttur snyrtifræðingi. Gítarleikarinn stendur nú á sextugu og hefur lifað af tónlist í 45 ár. Hann hefur því eðlilega frá ýmsu að segja og gerði það hispurslaust. Ljósmynd/Aðsend

„Við í Mezzoforte gerðum plötuna No Limits og fengum Nigel Wright til að pródúsera hana, þetta hefur verið 1987 og við fórum til Bretlands til að gera plötuna. Svo hafði Wright samband og fékk mig til að spila með bandi sem hann var búinn að vera að pródúsera fyrir, sem hét Shakatak, svona ekkert ósvipuð tónlist og við vorum búnir að vera að gera. Þeir eiga nokkur stór hit, svo sem Down on the Street og Dark is the Night.“

Svona útskýrir Friðrik Karlsson gítarleikari upphafið að því sem átti eftir að verða 18 ára dvöl hans í Bretlandi, þó með hléum til að spila annars staðar í heiminum. Friðrik fagnaði sextugsafmæli sínu í apríl og ræddi líf sitt og feril við Morgunblaðið við það tilefni. Sagnalagerinn var hins vegar ekki tæmdur og falaðist mbl.is því eftir örlítið meiru.

Friðrik útskrifaðist fyrstur manna af þá nýstofnaðri tónlistarbraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti árið 1982 en hafði þá þegar haft tekjur af tónlist í sjö ár og hefur nú í 45 ár. Hann lauk burtfararprófi í gítarleik frá Tónskóla Sigursveins þar sem hann síðar kenndi svo og stofnaði ásamt Birni Thoroddsen gítarleikara Nýja gítarskólann við Rauðagerði auk þess að afgreiða í hljóðfæraversluninni Rín við Rauðarárstíg þar sem Friðrik á enn sölumet í gíturum.

Kallaður til Bretlands akútt

„Svo var ég bara hérna heima og þá hringdi Wright og spurði hvort ég gæti komið til Bretlands alveg akútt, bara á morgun,“ rifjar Friðrik upp. „Þá hafði hann fengið það verkefni að pródúsera tónlistina í kvikmyndinni Evita sem Madonna lék í og hann vildi fá mig á gítar í það verkefni. Í sambandi við þetta var ég úti í sjö mánuði en kom oft heim um helgar og var þá að spila með Stjórninni í Þjóðleikhúskjallaranum,“ segir Friðrik og blaðamaður játar reyndar að hafa verið viðstaddur fleiri en eina og fleiri en tvenna þeirra tónleika.

Félagarnir í Mezzoforte á æfingu fyrir tónleika í Eldborg með …
Félagarnir í Mezzoforte á æfingu fyrir tónleika í Eldborg með Gunnari Þórðarsyni árið 2016. F.v.: Gunnlaugur Briem, Friðrik Karlsson, Eyþór Gunnarsson og Jóhann Ásmundsson. Ljósmynd/Aðsend

Hann segist í kjölfar þessa sjö mánaða tímabils hafa tekið að íhuga að flytja út. „Ég var með fullt af stórum verkefnum og ákvað svo bara að taka skrefið og fara alveg út. Þarna var ég nýbúinn að kynnast konunni minni þáverandi, Steindóru Gunnlaugsdóttur, og ég spurði hana hvort hún vildi ekki koma með mér til London í sex mánuði og svo endaði það með því að við vorum úti í 18 ár,“ segir Friðrik og hlær. „Enda sagði hún mér að ég væri bölvaður lygari,“ segir gítarleikarinn og skellir upp úr á ný.

Friðrik kom heim árið 2012 en var þó áfram með annan fótinn í Bretlandi auk þess að spila með Mezzoforte af og til milli þess sem aðrir gítarleikarar leystu hann af í verkefnum sveitarinnar sem öðlaðist nánast heimsfrægð árið 1983 með smellinum Garden Party. „Ég spilaði nú reyndar ekki mikið með Mezzoforte þennan tíma sem ég bjó í Bretlandi, ég þurfti bara að velja á milli og þetta voru sjö ár sem ég spilaði nánast ekkert með þeim. Það voru nokkrir gítarleikarar sem leystu mig af, þar á meðal þýski gítarleikarinn Bruno Möller,“ segir Friðrik.

Bretlandsdvölin var hið mesta ævintýri er upp var staðið. Friðrik lék með bresku tónlistarkonunni Kate Bush á 22 tónleikum árið 2014 sem voru hennar fyrstu síðan 1979 auk þess að koma fram með tónlistarfólki á borð við Madonnu, José Carreras og hinn velska Tom Jones. Þá var hann gítarleikari bresku útgáfu sjónvarpsþáttanna X-Factor svo aðeins sé stiklað á stóru.

Mezzoforte frestað í Noregi

„Daginn sem ég kom til Íslands var svo hringt í mig og ég beðinn að fara til Ástralíu að spila í [söngleiknum] Jesus Christ Superstar í tvo mánuði,“ segir Friðrik. „Ég var að spila svo mikið í leikhúsi í Bretlandi og mikið viðloðandi þann bransa og þannig kom þetta til.

En hvað er títt af Mezzoforte í dag, þessari fornfrægu sveit sem stofnuð var 1977?

„Við spiluðum mjög mikið á síðasta ári, vorum með 37 tónleika á árinu, gömlu mennirnir,“ svarar Friðrik glettinn. Blaðamaður minnist þess frá búsetuárum sínum í Stavanger að Mezzoforte hélt að minnsta kosti tvenna tónleika í nágrannabænum Sandnes á árunum upp úr 2010.

Friðrik ásamt dóttur sinni, Maríu Von Friðriksdóttur, sem kaupir á …
Friðrik ásamt dóttur sinni, Maríu Von Friðriksdóttur, sem kaupir á hann föt í þeirri von að vinir hennar haldi ekki að hann sé afi hennar. Tilefnið er útnefning Friðriks sem bæjarlistamanns Seltjarnarness í janúar 2018. Ljósmynd/Aðsend

„Við höfum verið töluvert mikið í Noregi, áttum einmitt að hefja tónleikaferð þar núna í mars í Stavanger en því var auðvitað öllu frestað vegna kórónuveirunnar og búið að færa þetta yfir á september, við sjáum hvort það gengur, ég veit náttúrulega ekkert um það.

Noregur er mjög sterkur markaður, við höfum stundum spilað þar tíu sinnum á ári, Noregur er sterkasta Norðurlandið hjá okkur og svo kemur Danmörk þar á eftir auk þess sem það eru svona þrír, fjórir staðir sem við höfum verið að spila á í Svíþjóð,“ segir Friðrik.

Hvernig taka frændur okkar Norðmenn þá Mezzoforte?

„Þeir eru rosalega hrifnir af okkur og þetta er reyndar mjög skemmtilegt. Oft koma einhver pör á tónleikana sem voru að kynnast þegar við slógum í gegn '83 en auk þess koma alltaf margir tónlistarmenn að hlusta á okkur, hvort sem það er í Danmörku, Noregi eða Svíþjóð,“ segir Friðrik frá.

Bölvað hark að lifa af tónlist

„Þetta er auðvitað bölvað hark,“ játar hann, inntur eftir því hvernig gangi að lifa af tónlist nú á dögum, menn verði í raun að hafa öll spjót úti, margir séu að kenna og hann sjálfur gefur út hugleiðslutónlist á Spotify undir merkjum Alda Music sem var Sena áður.

Friðrik Karlsson gítarleikari sextugur 24. apríl. Hann kvaddi Bakkus fyrir …
Friðrik Karlsson gítarleikari sextugur 24. apríl. Hann kvaddi Bakkus fyrir þremur árum og segir tónlistina halda sér ungum. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er náttúrulega gjörbreytt umhverfi núna, hér áður fyrr kom stór hluti teknanna af því að spila á böllum. Þegar ég var að túra með Stjórninni hérna 1993 og '94 voru þetta bara mjög góð laun og maður hafði fínar tekjur af þessu. Svo er þetta bara alveg dáið út en það sem hefur komið í staðinn eru tónleikar, og ekki síst þessir jólatónleikar sem voru ekki neitt neitt bara fyrir rúmum áratug. Allir og hundurinn þeirra halda jólatónleika,“ segir Friðrik og hlær dátt.

„Nú er það líka svo að farið er að kenna rytmíska tónlist í svo mörgum skólum, hún er komin inn í alla tónlistarskóla, áður fyrr gastu bara lært á píanó, selló og fiðlu og eitthvað svona, núna geturðu lært á rafmagnsgítar, trommusett og hljómborð og ég veit ekki hvað og þetta er rosalega mikil breyting á ekki svo löngum tíma. Þannig að núna eru mjög margir tónlistarmenn farnir að kenna og þetta er svolítið öðruvísi en var auk þess sem útgáfumál eru gjörbreytt, nú semurðu lag og setur það á Spotify en þú þarft reyndar að fá rosalega mikla spilun á Spotify til að hafa einhverjar tekjur af tónlistinni þinni,“ segir þessi gamalreyndi tónlistarmaður sem hefur marga fjöruna sopið.

Fór í hrikalegar mútur

„Ég vinn mikið til bara heiman frá mér, er mikið að semja hugleiðslutónlist. Ég bý við sjóinn og fæ mikinn innblástur þaðan og frá sólarlaginu,“ segir Friðrik sem er búsettur á Seltjarnarnesi og var reyndar útnefndur bæjarlistamaður Seltjarnarness árið 2018. „Nú gerirðu bara allt sjálfur, það er ekkert verið að bóka einhver stúdíó og fjölda fólks lengur til að taka upp, ég er bara heima með hljómborðið og gítarinn, ég get gert allt sjálfur,“ segir Friðrik en hikar svo. „Ja, nema syngja, ég hef aldrei getað sungið, þá þarf ég að fá einhvern fyrir mig,“ bætir hann við en breytir svo framburði sínum. „Jú ég gat alveg sungið þegar ég var barn en svo fór ég í svo hrikalegar mútur þegar ég var tólf ára að röddin bara bilaði eftir það,“ segir hann hlæjandi og rifjar upp að honum hafi verið í lófa lagið að kyrja helstu verk bresku rokkhljómsveitarinnar Slade hverrar stjarna skein skærast á áttunda áratugnum.

Mezzoforte í Mannheim í Þýskalandi árið 1985. Í miðjunni situr …
Mezzoforte í Mannheim í Þýskalandi árið 1985. Í miðjunni situr faðir Friðriks, Karl Friðrik Karlsson efnaverkfræðingur þar í borg, en föðurafi og -amma Friðriks voru Þjóðverjar. Ljósmynd/Aðsend

Er sú sveit þá einn áhrifavalda Friðriks í tónlist?

„Það eru svo margir, í upphafi voru það kannski Deep Purple og Led Zeppelin en ég get líka nefnt hljómsveitina Return to Forever sem spilaði eins konar jazz-rokk, þeir blönduðu rokkinu inn í jazzinn með mjög góðri útkomu. Svo hef ég bara farið svo víða og kynnt mér svo marga stíla, til dæmis vegna stúdíóvinnu, að það er ekki hlaupið að því að nefna einhverja sérstaka áhrifavalda. Ég hef gert svo ólíka hluti en ég er kannski hálfgerð alæta á tónlist.“

Friðrik tók þá ákvörðun fyrir þremur árum að segja skilið við Bakkus gamla og hætta alfarið að drekka áfengi. Hann stundar nú jóga, hugleiðslu, sjósund og líkamsrækt. Hvernig kom þetta til?

„Ég var orðinn dálítið slæmur í bakinu, ég var með svo vont „posture“ á sviðinu, stóð alltaf svo hokinn með gítarinn og svo var ég bara orðinn of feitur. Ég fór að hugsa um hvort maður ætti kannski að breyta um lífsstíl, grenna sig og setja aðeins meiri kraft í jógað og taka mataræðið í gegn og ég verð að játa að ég sé ekki eftir þessu, þetta er bara alveg frábært,“ segir Friðrik og kveður sjósund eitt mesta „kick“ sem á fjörur hans hafi rekið í lífinu. „Manni líður alveg svakalega vel eftir á.“

Hvað með fíkniefni á sínum tíma?

„Ég var aldrei mikið í dópi en prófaði held ég allt saman, reykti hass og gras og tók kókaín, reyndar þó bara einu sinni. Mér fannst kókaín viðbjóðslegt, langaði ekki að upplifa þá reynslu aftur en ég reykti hass og gras í svona ár. Gallinn var að þessi efni fóru svo í minnið, ég man að ég var kallaður upp að töflu í skólanum og átti að reikna einhver dæmi sem ég vissi að ég kunni alveg en svo var bara eins og allt blokkeraðist og þetta kom sérstaklega fram þegar ég var undir álagi eða einhver spenna var eða stress, þá lokaðist bara fyrir allt,“ rifjar Friðrik upp.

Var aldrei nein fyllibytta

Friðrik sneri baki við hugbreytandi efnum en lærði þess í stað innhverfa íhugun. „Maður er auðvitað alltaf að sækjast eftir breyttu ástandi,“ segir hann og glottið heyrist nánast gegnum símann. „Það eru svo margar leiðir til að gera hluti og þess vegna hætti ég líka að drekka,“ segir Friðrik. „Ég var aldrei nein fyllibytta, á auðvitað marga AA-menn sem vini en ég var aldrei kominn á háskalega braut í drykkjunni, það var bara engin spenna í þessu lengur, eins og þegar maður var að byrja að drekka sem unglingur. Núna finnst mér aðallega bara gott að vera allsgáður,“ segir Friðrik og bætir því við að hann sé einnig hættur sykuráti, að hætta að drekka hafi verið einfaldasta mál í heimi við hliðina á því að henda sykrinum út.

Á afmælistónleikum Mezzoforte í Háskólabíói 2017. Friðrik með uppáhaldshljóðfærið sitt, …
Á afmælistónleikum Mezzoforte í Háskólabíói 2017. Friðrik með uppáhaldshljóðfærið sitt, Nylon-gítarinn. Ljósmynd/Aðsend

„Það er bara fínt, ég held að þetta sé dálítið afstætt,“ segir nýbakað afmælisbarn, spurt um tilfinninguna að vera orðinn sextugur. „Aldur er svo afstæður, ég á 18 ára dóttur sem kaupir föt á mig af því að hún vill síður að vinir hennar haldi að ég sé afi hennar,“ játar Friðrik og skellihlær. „Svo fer þetta líka eftir lífsstílnum, ég er í mjög heilbrigðum lífsstíl í dag og mér líður til dæmis miklu betur en fyrir fimm árum. Tónlistin heldur mér ungum, maður þarf stöðugt að vera að uppfæra sig og takast á við nýja hluti. Þá hjálpar það auðvitað líka að vera í góðu sambandi,“ segir Friðrik Karlsson gítarleikari að lokum og vísar þar til sambýliskonu sinnar, Laufeyjar Birkisdóttur snyrtifræðings, auk þess sem Friðrik á eina dóttur, Maríu Von Friðriksdóttur, þá sem einmitt annast fatakaupin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert