Fylgdust með en skárust ekki í leikinn

Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn.
Ásgeir Þór Ásgeirsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Sigurður Bogi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú mótmæli gegn sóttvarnareglum sem voru haldin á Austurvelli um helgina. Af myndum að dæma komu þar saman fleiri en 10 manns en nú eru í gildi tíu manna samkomutakmörk. Að sögn Ásgeirs Þórs yf­ir­lög­regluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu fylgdist lögreglan með mótmælunum en skarst ekki í leikinn. Hann man ekki til þess að sótt hafi verið um leyfi fyrir mótmælunum.

Það virðist vera nokkuð augljóst að þarna hafi þær sóttvarnareglur sem eru í gildi núna verið brotnar? 

„Við erum bara að rannsaka þetta mál. Það er það eina sem ég get sagt um þetta mál akkúrat núna,“ segir Ásgeir og bætir við:

„Þeir fá það svigrúm sem þeir þurfa til að leggja mat á það sem átti sér stað þarna og rannsaka það sem þarna átti sér stað.“

Skjáskot úr myndbandi af mótmælunum. Í myndbandinu sjást á þriðja …
Skjáskot úr myndbandi af mótmælunum. Í myndbandinu sjást á þriðja tug manns sem voru saman komin til að mótmæla aðgerðum vegna Covid-19.

„Við fylgdumst með þeim

Spurður hvort lögreglan hafi haft eftirlit með mótmælunum eins og gjarnan er tilfellið segir Ásgeir: 

„Við fylgdumst með þeim. Við erum auðvitað bæði með myndavélar niðri á Austurvelli og síðan voru lögreglumenn sem gáfu þessu gaum.“

En þið skárust ekki í leikinn? 

„Nei.“

Aðspurður segir Ásgeir að lögreglan finni ekki fyrir því að almenningur sé farinn að slaka á hvað varðar sóttvarnir. 

„Ég held að flestir séu að reyna að leggja sig fram eins mikið og þeir geta svo það verði einhver von á því að það verði hægt að slaka á reglum í næstu reglugerð. Ég held að það séu langflestir og yfirgnæfandi meirihluti sem er að vinna í þá átt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert