Létt yfir íbúum Varmahlíðar

Aurskriðan féll á tvö hús í Varmahlíð.
Aurskriðan féll á tvö hús í Varmahlíð. Ljósmynd/Lögreglan

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Skagafjarðar, segir að létt sé yfir íbúum Varmahlíðar eftir að allri rýmingu var aflétt á svæðinu í gær. 

„Mér finnst miklu léttara yfir öllum eftir að það er búið að komast til botns í þessu, búið að tryggja öryggi fólks, búið að aflétta öllum rýmingum og hreinsunarstarf er hafið. Það er jákvæður andi yfir íbúunum,“ segir Sigfús.

Hann segir gott að það sé búið að finna upptökin á vatninu og nú búið að hleypa vatninu í skurð sem fer í annan farveg.

„Upptökin eru í raun tvær uppsprettur sem koma í ljós fyrir ofan húsin. Þetta annars vegar virðist vera kalt jarðvatn og hins vegar velgjuvatn. Þetta er þekkt hitasvæði, en vatnið beinist núna fram hjá öllum þessum húsum og niður fyrir þorpið.“

Fólkið ber sig vel

Hann segir fólkið sem varð fyrir þessu bera sig vel.

„Það er örugglega misjafnt ástand á mönnum en íbúarnir sem urðu fyrir þessu fengu áfallahjálp strax. Ég er búinn að hitta þau nokkrum sinnum og þau bera sig vel en auðvitað veit maður aldrei hvenær kemur eftirásjokk,“ segir Sigfús.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert