„Þurfum að veita endurgjöf til skólanna“

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir mikilvægt að veitt sé endurgjöf til skólanna með einhverjum hætti en eins og fram kom í Morgunblaðinu í vikunni hefur Menntamálastofnun neitað að upplýsa skóla um gengi þeirra í síðustu tveimur PISA-könnunum.

Ásmundur segir að umræðan um menntamál hafi verið góð í vikunni en um fátt annað hefur verið rætt á Íslandi síðustu dagana en lélegur árangur íslenskra ungmenna í PISA-rannsókninni.

„Við þurfum að passa okkur á því að þessi umræða verði ekki bara í þessari viku því fyrir kerfi eins og menntakerfi þá á að vera svona umræða allt árið vegna þess að menntamálin skipta okkur gríðarlega miklu máli,“ segir Ásmundur við mbl.is.

Hann segir að umræðan hafi verið góð og að margir hlutir hafi komið fram sem teknir verða inn í þá vinnu sem búið var að ákveða að fara í. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar-og nýsköpunarráðherra lét hafa eftir sér í viðtali við mbl.is að niðurstöður PISA-könnunarinnar sýni fram á að ákveðið neyðarástand ríki hvað varðar menntmál í landinu og að menntakerfið sé að bregðast drengjum sérstaklega. Spurður út í þessi ummæli segir Ásmundur Einar:

„Við erum að vinna gríðarlega stórar breytingar í menntamálunum. Þar má nefna stofnun miðstöð menntunar og skólaþjónustu, breytingar á skólaþjónustulöggjöf þar sem hundruð manna koma að, matsferilskerfi þar sem ætlum að ræða með hvaða hætti við ætlum að vinna að endurgjöf til skólakerfisins og mat á skólakerfinu, endurskipun námsgagna og þá er vinna í gangi við að breyta aðalnámskránni. Það eru því miklar breytingar í gangi meðal annars vegna þess að við viljum sjá breytingar á skólakerfinu,“ segir Ásmundur Einar.

Hann segir að allir vilji gera betur í íslenska menntakerfinu og það þurfi að rýna í það hvort þær stóru breytingar sem er verið að vinna að í samstarfi við fjölda aðila séu réttar, hvort við séum á réttri leið og á hvaða hlutum þurfi að skerpa á og leggja áherslu á.

„Við sjáum á tölfræðinni að einstaka hópar eru að koma verr út í PISA-könnuninni. Það eru drengir, landsbyggðin, börn með erlendan tungumála- og menningarbakrunn og svo sjáum við í öðrum rannsóknum að líðan stúlkna fer hrakandi á meðan drengjunum virðist líða betur,“ segir Ásmundur.

Hann bætir því við að þessa tölfræði þurfi að skoða betur, vinna að aðgerðum og fara í samtal við alla þá aðila sem að málinu koma.

„Það er verkefni okkar í heild sem myndum íslenskt menntakerfi og félagskerfi að taka utan um þessa hópa og bæta þessa tölfræði.“

Fram kom í Morgunblaðinu í vikunni að Menntamálastofnun hafi neitað að upplýsa skóla um gengi þeirra í síðustu tveimur könnunum á meðan menntamálayfirvöld í Finnlandi og Eistlandi hafi gert það. Eistland var efst Evrópulanda í PISA-könnuninni og Finnland efst Norðurlandaþjóða. Spurður út í þessa ákvörðun Menntamálastofnunnar segir Ásmundur Einar:

„OECD mælir sjálft sterklega gegn því að niðurstöðurnar séu sundurliðaðar niður á skóla. Þess vegna hefur þetta í undanförnum könnunum verið gert með þessum hætti. Þótt einstaka lönd séu að gera þetta þá mælir OECD gegn þessu vegna þess að gögnin varpi ekki með skýrum hætti niðurstöðu á einstaka skóla,“ segir Ásmundur.

Sjá hvernig einstakir skólar standa

Hann segir gríðarlega mikilvægt að veitt sé endurgjöf til skólanna og sjá hvernig einstakir skólar standa og hvernig einstaka sveitafélög standi sig. Þar með sé hægt að sjá hvar sé hægt að bera betur og læra af þeim sem eru að gera vel.

„Þetta er eitthvað sem við ætlum að taka í framhaldinu. Ekki bara í PISA. Við erum með nýlega norræna rannsókn, við erum með íslenskar æskulýðsrannsóknir þar sem við höfum mörg gögn úr einstaka sveitarfélögum sem varða til að mynda ofbeldi, líðan og fleiri þætti. Það sem við ætlum okkur að gera núna er að kafa dýpra ofan í þessa tölfræði, þar á meðal PISA, og vinna samantektir fyrir einstaka skóla og sveitarfélög sem hægt er að nýta áfram,“ segir Ásmundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert