Myndir frá Norður-Kóreu minna á dvölina í Sovétríkjunum

Eyþór Eyjólfsson hefur komið víða við. Hann dvaldi m.a. í …
Eyþór Eyjólfsson hefur komið víða við. Hann dvaldi m.a. í rúmt ár í Sovétríkjunum á námsárum sínum. mbl.is/Brynjólfur Löve

Dvöl frumkvöðulsins Eyþórs Eyjólfssonar í Sovétríkjunum tók endi fyrr en áætlað var þegar það rann upp fyrir honum hvers vegna hann hefði hlotið styrk til náms í þessum heimshluta – það átti að þjálfa hann í að verða njósnari.

Brennandi áhugi á marxisma og lenínisma var það sem dró hann upprunalega austur fyrir járntjaldið en að hans sögn læknaði ríflega eins árs dvölin í Sovétríkjunum hann af „öllum vinstri hugsunum“.

Eyþór, sem í dag framleiðir íslensk styrjuhrogn á Ólafsfirði, rifjar upp kaldranalega tímann í Sovétríkjunum í Hringferðarviðtali við Morgunblaðið í tilefni af 110 ára afmæli blaðsins. Umræðan um námsárið austan tjalds hefst á áttundu mínútu í spilaranum hér að neðan. 

Þegar járntjaldið var sem sterkast

„Þetta var mjög merkilegur tími. Ég fór út þegar Brezhnev var að draga síðustu andardrættina, þetta var '83,“ segir Eyþór. Hann hafði upprunalega sótt um í háskóla í Vín og var á leiðinni þangað þegar hann fékk símtal sem gjörbreytti ferðaáætluninni á miðri leið. 

„Á leiðinni þangað hringdi faðir minn í mig og sagðist hafa borist bréf frá sovéska sendiráðinu og sagði mér að ég væri kominn með styrk til að læra í Sovétríkjunum.

Á meðan ég var að bíða eftir vegabréfsárituninni í London þá skutu Sovétmenn niður suðurkóreyska farþegavél og allir létust um borð af því að hún hafði farið inn í [lofthelgi] þeirra. Þetta var sá tími þegar járntjaldið var sem sterkast.“

Myndir frá Norður-Kóreu vekja upp minningar

Eyþór minnist þess að hafa notið þess að fara í leikhús, kynnast Rússum og borða góðan mat – þegar hann var fáanlegur. Var það í Rússlandi sem hann bragðaði fyrst á kavíar. 

„Það sem er mér hugleikið er hvað þetta var gífurlega kaldur tími og jú ég er feginn að hafa kynnst þessu og þegar ég sé myndir frá Norður-Kóreu þá minnir það mann margt á það sem maður upplifði.“

Þá var ekki hlaupið að því að hringja heim.

„Þegar maður ætlaði að hringja til Íslands þá þurfti maður að panta símtal með tveimur til þriggja vikna fyrirvara. Það helgaðist af því að það var einn Rússi sem vann hjá KGB sem var þá til staðar og gat hlustað á símtölin. Og bréfin þau bárust – ja stundum fékk maður bréf og stundum einfaldlega hurfu þau.“

Áttaði sig þegar leið á dvölina

Að sögn Eyþórs stóð til að hann myndi dvelja miklu lengur í Sovétríkjunum en þetta eina ár. 

„Svona þegar á leið á tímann þá áttaði maður sig á hvers vegna maður hefði fengið styrkinn. Það var alveg ljóst að það átti að þjálfa mann í að verða njósnari.“

Hægt er að hlust á hlaðvarpið í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert