Hin mörgu andlit Jóns Sigurðssonar

Eitt af elstu protrettum Bergþórs af Jóni. Síðari verkin eru …
Eitt af elstu protrettum Bergþórs af Jóni. Síðari verkin eru mun agressívari.

Þeir eru ekki allir mjög frýnilegir Jónarnir sem Bergþór Morthens skapar. En þeir eru allir málaðir til heiðurs þjóðhetjunni sem var en verður aldrei meir. 

Blaðamenn Morgunblaðsins taka hús á Bergþóri í hinu svokallaða Tynesarhúsi á Siglufirði. Reisulegu timburhúsi sem hann keypti eiginlega með hálfum huga árið 2004. En kaupin urðu til þess að hann festi endanlega rætur í þorpinu, stað sem hann var við það að yfirgefa á leið sinni til Svíþjóðar.

Bergþór virðir fyrir sér málverkið Toxic Milk sem kallast á …
Bergþór virðir fyrir sér málverkið Toxic Milk sem kallast á við hið víðfræga málverk Kjarvals, Fjallamjólk. mbl.is/Brynjólfur Löve

Bergþór breytti húsinu í íveru- og vinnustofu sem á sér fáar hliðstæður, að minnsta kosti hér á landi. Miðhæðin var að mestu tekin úr húsinu og það skapar gríðarmikla lofthæð og loftun sem nýtist listamanninum við sköpunarstarfið og til þess að fá innblástur.

Hugur og hönd fá útrás

Meðal þess sem bregður fyrir augu þegar inn er gengið er stóreflis boxpúði. Hann er vel nýttur á heimilinu, bæði til heilsueflingar en einnig til þess að hvíla hugann frá hinu skapandi. Hugur og hönd þurfa hvort tveggja að fá útrás fyrir sitt hæfi.

Jón Sigurðsson í sínum mörgum myndum.
Jón Sigurðsson í sínum mörgum myndum.

Á veggjum og trönum í húsinu standa verk sem augljóslega vísa til þjóð- og frelsishetjunnar Jóns Sigurðssonar. Þeir sem þekkja til höfundarverks Bergþórs vita að þar er ákveðin hrynjandi sem teygir sig langt aftur þegar skyggnst er yfir feril hans.

Samfylgdin við Jón

Þetta er meðal þess sem við tökum upp í spjalli við hann í Tynesarhúsi. Við efnum til þess sem hluta af Hringferð Morgunblaðsins í tilefni 110 ára afmælis blaðsins. Hlýða má á allt viðtalið á mbl.is og öllum helstu hlaðvarpsveitum. En í spilaranum hér að neðan má nálgast þann tímapunkt þegar talið berst að Jóni og samfylgd þeirra félaganna.

Bergþór segist leita í Jón þegar hann lendi í krísu eða þegar hugmyndirnar láta standa á sér. Allt hófst það í hruninu þegar kallað var eftir öflugum leiðtoga til þess að bjarga landinu frá glötun. Hann viðurkennir að honum hafi þótt hugmyndin fjarstæðukennd og það hafi orðið til þess að hann fór að kljást við Jón. Síðan þá hafa þeir verið fastagestir á striga hans, sumir klassískir en flestir framúrstefnulegir.

Fær yfir sig reiðilestra

„Ég ber óendanlega virðingu fyrir Jóni Sigurðssyni og sögu hans og öllu því sem hann stendur fyrir. Ég hef stundum fengið reiðilestur frá sumum þjóðernislega þenkjandi Íslendingum sem finnst ég vera að gera hina verstu ósvífu,“ útskýrir hann.

Svar við ranghugmyndum og sjónarspili

Bergþór fullyrðir hins vegar að þessi túlkun hans feli það alls ekki í sér. Þvert á móti. Hann er þá spurður út í það hvort þessi myndverk séu gerð til þess að brjóta niður þá helgimynd af Jóni sem teiknuð hefur verið upp af honum á síðustu árum.

Eitt fjölmargra verka þar sem Bergþór túlkar þjóðhetjuna.
Eitt fjölmargra verka þar sem Bergþór túlkar þjóðhetjuna.

„Það er pínu þannig. Raun og veru samt að afhjúpa okkur sjálf í gegnum þessa dýrkun sem við viljum tengja við þennan sterka landsföður, þetta tengist kannski, ef maður fer út í einhverjar heimspekipælingar, þá getur maður talað um Guy Debord og samfélag sjónarspilsins að við erum alltaf að setja fram einhverja falska mynd af okkur. Mér fannst eins og það væri verið að draga hann í einhverja falska mynd, stjórnmálamenn, aðrir, umræðan og svo framvegis. Það er einhvern veginn alltaf verið að varpa hlutunum einhvern veginn á eitthvað annað og sýna einhverja aðra mynd en hið raunsanna er.“

Enn nýr Jón tekur á sig mynd og eitt frægasta …
Enn nýr Jón tekur á sig mynd og eitt frægasta protrettið af frelsishetjunni á hillu skammt frá. mbl.is/Brynjólfur Löve

Mun fylgja honum í gröfina

Bergþór segist ætla að halda áfram að mála Jón Sigurðsson, að minnsta kosti einn á ári, allt þar til hann verður sjálfur kominn undir græna þúfu. Og hann fylgir honum hvert fótmál.

Einhverskonar leikvöllur

„Ég er farinn að þekkja andlitið á honum svo vel og hann er orðinn einhvern veginn partur af mér. Ég er eiginlega búinn að aftengja hann sem Jón Sigurðsson. Þetta er eiginlega orðinn einhverskonar leikvöllur fyrir mig til að vinna í málverkinu. Þessar upphaflegu djúpu pælingar hafa vikið fyrir  einhverjum malerískum tilraunum með efni og áferðir og annað slíkt og greyið Jón verður fyrir barðinu á því.“

Svíarnir opnir fyrir verkunum

Bergþór býr ekki aðeins á Siglufirði. Hann er einnig með vinnustofu í Gautaborg. Hann segir meira pláss fyrir verk á borð við þau sem hann sendir frá sér á stórum markaði eins og í Svíþjóð. Hann hefur þó haldið sýningar hér heima, bæði einn og með öðrum.

Þarna leynist Jón Sigurðsson að baki.
Þarna leynist Jón Sigurðsson að baki.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert