Samtalið byrjaði í fyrirpartíi

Hringferðin kíkti í Garðinn og ræddi við bæjarstjórann Magnús Stefánsson.
Hringferðin kíkti í Garðinn og ræddi við bæjarstjórann Magnús Stefánsson. mbl.is/Brynjólfur Löve

Magnús Stefánsson, fv. þingmaður og ráðherra, varð nokkuð óvænt bæjarstjóri í Garði árið 2012, á miðju kjörtímabili. Hann er í dag bæjarstjóri Suðurnesjabæjar, sem varð til með sameiningu Garðs og Sandgerðis sumarið 2018.

Rætt er við Magnús í nýjum hlaðvarpsþætti Hringferðar Morgunblaðsins sem birtist á helstu hlaðvarpsveitum í dag. Þar fjallar hann um lífið í Suðurnesjabæ, hversu vel var tekið á móti honum þegar hann hóf störf, atvinnulífið á svæðinu, samanburðinn á því að reka sveitarfélag í dag og fyrir 30 árum þegar hann gegndi stöðu sveitarstjóra í Grundarfirði, og margt fleira. Þá fjallar Magnús einnig um þingferil sinn, sem spannar 12 ár, en á þeim tíma upplifði hann það bæði að falla af þingi og verða ráðherra.

mbl.is/Brynjólfur Löve

Mikilvægir súpufundir

Magnús rekur stuttlega í viðtalinu hvernig sameining sveitarfélaganna kom til. Þar liggur nú skemmtileg saga að baki. Hún er nokkurn veginn á þá leið að bæjarfulltrúar í Sandgerði og Garði voru á leið á aðalfund Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum en ákváðu að hittast í fyrirpartíi heima hjá Einari Jóni Pálssyni, sem var þá og er enn forseti bæjarstjórnar. Þar var lauslega rætt um mögulega sameiningu sveitarfélaganna en ólíkt því sem gerist oft í óformlegum samtölum í fyrirpartíum var þessu samtali fylgt fljótlega eftir.

„Við ákváðum að bjóða sveitarstjórn Sandgerðis í kósí-súpufund. Þar var ágætis samtal og enginn þrýstingur á sameiningu, en samtalið var tekið áfram,“ rifjar Magnús upp. Bæjarstjórn Sandgerðisbæjar bauð stuttu síðar í annan súpufund, samtalið hélt áfram og ákveðið var að fara í könnunarviðræður. Niðurstaðan varð sú að bera sameiningu undir íbúa. Niðurstaðan var nokkuð afgerandi í Garði, þar sem um 70% íbúa samþykktu sameiningu, en mjórra var á munum í Sandgerði, þar sem um 56% samþykktu sameiningu en um 44% voru á móti.

Nýtt sveitarfélag, Suðurnesjabær, tók til starfa 10. júní 2018. Íbúar voru þá um 3.200 en eru í dag rétt rúmlega 4.000. 

Rætt er nán­ar við Magnús í Hring­ferðar­hlaðvarpi Morg­un­blaðsins. Hægt er að hlusta á þátt­inn á hlaðvarps­veit­um og í spil­ar­an­um hér fyr­ir neðan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert