Vorum öll hjá henni þegar hún dó

Smári missti konu sína Önnu Kristínu Magnúsdóttur haustið 2022 úr …
Smári missti konu sína Önnu Kristínu Magnúsdóttur haustið 2022 úr heilahimnubólgu. Börnin þeirra, Magni, Goði og Freyja misstu yndislega móður. mbl.is/Ásdís

Í úthverfi Kaupmannahafnar býr einstaklega samheldin og dugleg fjölskylda; faðirinn Smári Þorsteinsson, dóttirin Freyja og synirnir Goði og Magni. Mikill harmleikur dundi yfir þegar móðir barnanna og eiginkona Smára lést þann 4. október 2022, nýorðin fimmtug. Þann dag breyttist allt í einni svipan, en Anna Stína, eins og hún var kölluð, fékk heilahimnubólgu og lést sólarhring síðar. Áfallið var gríðarlegt og litla fjölskyldan sat eftir í ólýsanlegri sorg. Stórt verkefni var fram undan; að finna leið til að halda lífinu áfram án Önnu Stínu, vera jákvæð og finna aftur gleði í lífinu.

Fellur aldrei verk úr hendi

Smári og Anna Stína fluttu út til Danmerkur árið 2011 með þrjú ung börn. Hjónin fóru bæði í meira nám, enda aldrei hægt að læra nóg að sögn Smára.

„Ég hafði verið á samningi hjá pabba í smíði en hafði aldrei klárað, en dreif mig að klára eftir Kennó,“ segir Smári sem fann gott nám í Danmörku. Hann fór að læra hótelstjórnun og Anna Stína heimspeki og alþjóðavæðingu í tungumálum, en áður hafði hún verið kennari og námsráðgjafi.

„Ég var svo heppinn að fá strax vinnu hjá Scandic Hotels meðfram námi og var settur alveg grænn í tekjustýringardeild. Ég hafði ætlað mér að vera hótelstjóri að taka á móti gestum en endaði fyrir aftan sviðið,“ segir Smári og segir starfið hafa gengið svo vel að honum var boðin áframhaldandi vinna og fékk fullan styrk til að klára diplómanám í tekjustýringu í Cornell í Bandaríkjunum sem hann tók í fjarnámi.

„Mér fellur aldrei verk úr hendi; ég held að það sé í fjölskyldunni. Ég á snarofvirk systkini og í matarboðum hjá okkur koma alltaf upp þúsund hugmyndir. Margar þeirra hafa orðið að veruleika,“ segir hann og brosir.

Vann á nóttunni á Istedgade

Fjölskyldan undi sér vel í Danmörku, en þangað flutti Smári án þess að kunna orð í dönsku. Anna Stína hafði kennt dönsku og kunni því málið. Þau voru fljót að eignast góða vini, en baklandið varð eftir á Íslandi.

„Þarna vorum það bara við fimm. Það var engin amma og afi eða systkini og ekkert öryggisnet. Það gerði það að verkum að við erum alveg gífurlega samheldin fjölskylda og stólum hvert á annað. Kannski var það til þess að undirbúa okkur undir verkefnið stóra, þegar Anna Stína deyr,“ segir Smári, sem á þeim tíma var kominn í flotta stöðu hjá Scandic, en auk þess var hann tekjustjóri fyrir tvö önnur hótel.

„Anna Stína vann þá í Reden, eða Hreiðrinu, sem er staður fyrir vændiskonur. Oft þegar Anna Stína var spurð hvað hún gerði, svaraði hún að hún ynni á nóttunni á Istedgade,“ segir Smári og brosir.

„Fólk alveg roðnaði og blánaði, en hún vann vissulega á Istedgade á nóttunni, en við að bjarga konum af götunni. Hún tók á móti skjólstæðingum þarna og var algjör ofurhetja, en hennar ofurkraftur var að geta hjálpað fólki. Hún fann alltaf lausnir. Þarna var fólk í djúpu mansali og oft í stórhættu. Þetta var gríðarlega hættulegt umhverfi,“ segir hann.

Smári og Anna Stína voru saman í aldarfjórðung. Hann syrgir …
Smári og Anna Stína voru saman í aldarfjórðung. Hann syrgir nú sína góðu konu.

„Hún náði margsinnis að hjálpa þessum vesalings konum. Hún blómstraði í þessu starfi en einn morguninn þegar hún kom heim sagði hún mér að hún væri búin að fá nóg,“ segir Smári og segir það hafa tekið á hana að horfa upp á stúlkur allt niður í fjórtán ára vera seldar mansali þar sem þær þurftu að sæta nauðgunum og barsmíðum.

Finn hana hríðskjálfandi

Haustið 2022, eftir mikla vinnutörn allt sumarið í matarvögnum sem hjónin ráku, ákváðu Smári og Anna Stína að fara í borgarferð með strákunum, en Freyja var upptekin í háskólanámi sínu.

„Fyrst fórum við til Íslands að ferma Goða þann 17. september. Við fórum svo til Póllands 29. september sem var fimmtugsafmælisgjöfin hennar því hún varð fimmtug fjórtánda ágúst. Við fórum í fjögurra daga ferð til Kraká sem var frábær og mikil upplifun. Við komum heim að kvöldi þriðja október og allir í fullu fjöri. Þegar við komum heim fór Anna Stína að elda mat og ég að ganga frá úr töskunum. Við sátum óvenjulengi við matborðið að borða og sögðum Freyju sögur úr ferðinni og sýndum henni myndir. Eftir matinn biður Anna Stína mig að græja ruslið á meðan hún myndi ganga frá í eldhúsinu,“ segir hann, en smá tími fór í það starf.

Þegar ég kom inn hálftíma síðar sá ég að hún var ekki búin að taka eldhúsið, sem var mjög óvenjulegt. Ég finn hana í sófanum hríðskjálfandi. Hún sagðist vera komin með hita og ég færi henni teppi og te. Hún hristist og skelfur og fer svo inn í rúm. Ég þurfti að vinna í tölvunni og fer svo inn um miðnætti og finn þá hvað hún er orðin heit. Ég vek hana og kalla á Freyju sem er að læra hjúkrunarfræði. Freyja ákveður að hringja í lækni og segir honum að hún sé með fjörutíu stiga hita, borði ekki eða drekki og sé hálfþvoglumælt. Hann sagði okkur að gefa henni hitalækkandi, tryggja að hún drykki og láta hana sofa,“ segir Smári og segist hafa verið að stumra yfir henni um nóttina og að kæla hana niður með köldum þvottapokum á meðan börnin sváfu.

„Um hálfsjö um morguninn leist mér ekkert á blikuna og hringdi á sjúkrabíl. Ég náði þá litlu sambandi við hana,“ segir hann og segir sjúkraflutningsmennina hafa grunað að hún væri með heilahimnubólgu, þó hún væri ekki með öll einkennin. Þeir byrjuðu þó strax að gefa henni lyf við því.

Í lögreglufylgd milli spítala

Þegar Smári mætti á spítalann var Anna Stína komin á stofu og heill her af læknum og hjúkrunarfræðingum stóðu yfir henni.

„Læknir kom til mín og sagði: „Ég vona að þú gerir þér grein fyrir því að konan þín er alvarlega veik.“ Ég svaraði því neitandi, ég hafði ekki gert mér grein fyrir því. Hann verður hissa og segir hana vera með blóðeitrun, sýkingu og heilahimnubólgu. Hann segir mér að hringja í alla sem þurfa að vera viðstaddir ef hún myndi ekki hafa það af,“ segir Smári sem fékk að vonum áfall, en þegar þarna er komið er klukkan tíu að morgni.

Smári melti þessar ógnvænlegu fréttir í korter áður en hann hringdi í Freyju.

„Ég bað Freyju að sækja strákana sem voru þá báðir úti í bæ í skólaferðalögum, þannig að hún þurfti að leita þá uppi. Þau voru komin um tólfleytið á spítalann, en þá var Anna Stína nánast rænulaus. En þegar börnin koma vaknar hún aðeins og segir við Magna að þetta verði allt í góðu. Hún var svo sett í aðgerð til að létta á þrýstingi fyrir aftan heilann, en það hjálpaði ekkert. Þá segja læknarnir að það þurfi að flytja hana á Ríkisspítalann, en við vorum á spítala í Hvidovre. Hún var svæfð svo hægt væri að flytja hana. Þegar við sáum sjúkrabílinn keyra af stað, sló það okkur öll og við sáum hvað þetta var alvarlegt. Það fóru fjórar mótorhjólalöggur á undan sjúkrabílnum og tvær á eftir til að greiða leiðina á milli spítalanna. Þeir stoppuðu alla umferð í Kaupmannahöfn til að koma henni á staðinn,“ segir Smári, en hann og börnin keyrðu svo á eftir í sínum bíl.

„Það tók okkur 35 mínútur að keyra þessa leið en sjúkrabíllinn var sjö mínútur.“

Ekki liðinn sólarhringur

Smári segir allt heilbrigðisstarfsfólk hafa lagt sig fram við að gera sitt besta að reyna að bjarga lífi Önnu Stínu.

„Ég er svo þakklátur fyrir að hafa verið þarna og veit að það var allt gert. Ég þurfti svo að hringja í fjölskylduna heima á Íslandi og hélt þeim upplýstum á þræði þar sem ég setti inn skilaboð. Þetta gerðist svo hratt. Þegar líður á kvöldið fer lifrin að bila, lungun að falla saman, nýrun að gefa sig. Hálfátta um kvöldið komu vinir okkar til að vera hjá okkur og stuttu síðar komu læknar til að segja okkur að það væri ekkert meira sem hægt væri að gera. Tveimur tímum síðar hætti hjartað að slá. Við vorum öll hjá henni þegar hún dó.

Anna Kristín lést 4. október 2022 um klukkan tíu að kvöldi til.

„Það var ekki liðinn sólarhringur frá því hún fékk hita.“

Áfallið og sorgin hafði knúið dyra og fjölskyldan stóð eftir í sárum. Yndisleg móðir og eiginkona og einkabarn foreldra sinna hafði verið hrifsuð burt fyrirvararlaust.

„Anna Stína var svo mögnuð kona. Hún skilur eftir sig gríðarlegt skarð en mikinn lærdóm. Hún hefur kennt okkur allt og við veljum að vera jákvæð þó það sé drulluerfitt. En við erum heppin að vera góð fjölskylda og höfum fengið góða hjálp. Það er mín skylda að koma börnunum og sjálfum mér aftur á lappir svo við getum lifað áfram.“

Hef leyft mér að njóta að syrgja

Smári segir þau virða minningu Önnu Stínu mest með því að vera jákvæð og hjálpa hvert öðru.

„Við erum mjög dugleg. En auðvitað þyrmir yfir mann inn á milli og fyrstu jólin og afmælin á eftir voru erfið. Freyja átti afmæli daginn eftir að mamma hennar dó, 5. október, en heldur nú upp á afmælisdaginn sinn hálfu ári seinna, 5. apríl, og hún má það alveg. Hún átti í raun afmæli tveimur tímum eftir að mamma hennar dó.“

„Við erum öll búin að tækla sorgina á mismunandi hátt og ég hef kannski hellt mér út í vinnu, sem er oft íslenska leiðin,“ segir Smári, en hann var settur í veikindaleyfi í þrjá mánuði eftir missinn. Síðan tók vinnan við sem hjálpar honum að komast í gegnum dagana.

„En ég er samt meðvitaður um að ég er í sorgarferli og hef leyft mér að njóta þess að syrgja. Það hljómar kannski rangt, en að syrgja er gjaldið fyrir að elska. Við tölum mjög opinskátt um Önnu Stínu og dauðann. Og svo bara grátum við saman. Við förum oft út í kirkjugarð og kveikjum á kertum.“ 

Fjölskyldan á góðri stundu; Smári, Freyja, Anna Stína, Goði og …
Fjölskyldan á góðri stundu; Smári, Freyja, Anna Stína, Goði og Magni.

Er hægt að sætta sig við þetta?

„Maður sættir sig aldrei við þetta. Sorgin er alltaf jafn stór og verður alla ævi. En ég held að maður geti nýtt sér sorgina til að efla sig og styrkjast. Ég er farinn að hugsa lífið allt öðruvísi. Við erum mjög bjartsýn á lífið þó það þyrmi yfir okkur öðru hverju. Þetta er risaverkefni; missirinn, sorgin og svo lífið sem er fram undan. En við erum nú á betri stað.“

Ítarlegt viðtal er við Smára í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert