„Hækkun VSK á ferðaþjónustu er þjóðhagslegt óráð“

Frá aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF)
Frá aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) Ljósmynd/Samtök ferðaþjónustunnar

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) hafna öllum hugmyndum um að virðisaukaskattur á greinina verði hækkaður.

Í ályktun aðalfundar samtakanna sem send var fjölmiðlum kemur fram:

Undanfarna mánuði hafa stjórnmálamenn og verkalýðsforingjar viðrað hugmyndir um að hækka virðisaukaskattshlutfall ferðaþjónustu í 24%. Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði, sem SAF hefur látið vinna, bendir til þess að slík hækkun myndi almennt hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári, lækka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnishæfni hennar, lækka verga landsframleiðslu og auka skatttekjur mun minna en sem nemur hækkun virðisaukaskattshlutfallsins, og meira að segja ef til vill lækka þær miðað við sem orðið hefði við óbreytt skatthlutfall.“

Útflutningsverðmæti 598 milljarðar á síðasta ári

Í ályktun sinni vekja samtökin athygli á því að útflutningsverðmæti ferðaþjónustu hafi verið 598 milljarðar á síðasta ári og að greinin hafi staðið undir 32% af heildarútflutningi vöru og þjónustu.

„Skattspor ferðaþjónustu var 152 milljarðar króna árið 2022, og lætur því nærri að skatttekjur af ferðaþjónustu hafi fjármagnað að fullu öll rekstrarframlög ríkisins til sjúkrahúsþjónustu og löggæslu í landinu það ár. Þegar er ljóst er að skattsporið verður hærra fyrir árið 2023.“

Í niðurlagi ályktunarinnar er það brýnt fyrir stjórnvöldum að ef ferðaþjónustan eigi að vera ein af helstu útflutningsatvinnugreinum landsins þá þurfi landið sem áfangastaður að vera samkeppnishæfur og þurfi stjórnvöld ávallt að hafa það í huga þegar ákvarðanir sem snerta greinina eru teknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert