„Hún er orðin sprautufíkill 14 ára gömul“

Hildur Hólmfríður Pálsdóttir varð fyrir þeirri skelfilegu lífsreynslu að missa unga dóttur sína úr fíkniefnaneyslu árið 2014, aðeins 15 ára að aldri. 

Hildur fræðir núna ungmenni og foreldra um fíknivanda með því að halda fyrirlestra í grunn- og menntaskólum um allt land.

Hildur er gestur Ásthildar Hannesdóttur í Dagmálum í dag.

Neyslan stigmagnaðist 

Að sögn Hildar var dóttir hennar aðeins 12 ára þegar hún byrjaði að fikta. Fyrst hafi hún prófað að reykja gras en var fljótt farin að neyta harðari efna. Hildur segir tilfinninguna hafa verið óbærilega þegar hún uppgötvaði að dóttir hennar hafi verið farin að neyta vímuefna í æð.

„Svo bara kynnist hún eldra fólki og þetta er svo fljótt að gerast, að fara í öll þessari sterkari efni, og þangað til að hún er nýlega orðin 14 ára og er farin í sprautur. Hún er orðin sprautufíkill 14 ára gömul,“ lýsir Hildur neyslu dóttur sinnar sem hún segir hafa stigmagnast á skömmum tíma.

„Þegar maður hugsar um þetta þá verður maður svo sár. Af því það er svo takmarkað sem maður getur gert.“

Sár út í kerfið

Hildur segist finna til reiði gagnvart kerfinu. Hún segir andlát dóttur sinnar ekki hafa þurft að gerast ef kerfið hefði ekki brugðist en dóttir Hildar hefði átt að vera í eftirmeðferð á Vík þegar andlátið bar að.

Hún hafði nýlokið meðferð á Vogi og var boðið að koma í eftirmeðferð á Vík, sem hún þáði. Skyndilega var henni þó neitað um eftirmeðferð undir þeim formerkjum að hún passaði ekki inn í hópinn sökum ungs aldurs. Sú kerfislega ákvörðun réði örlögum hennar.

Sama úrræðaleysið nú og þá

Það tekur á Hildi að rifja upp örlög dóttur sinnar. Sárin munu aldrei gróa. 

„Maður reyndi allt. Hún fór í fóstur norður á Hvammstanga til þess að reyna að koma henni úr félagsskapnum og svona en hún hefði þurft að vera mikið, mikið lengur,“ segir Hildur.

„Þetta hafa kannski verið sirka átta mánuðir sem hún var á Hvammstanga en alltaf þegar hún kom í bæinn var hún alltaf að leita uppi krakkana, gamla félagsskapinn, á þessum stöðum sem þau eru að halda sig,“ segir hún og telur dóttur sína hafa þurft að vera lengur á Hvammstanga til að ná að slíta sig frá þeim aðstæðum sem hún var komin í.

„Hún kom heim í helgarfrí og þá var hún alltaf að leita. Var að fara til dæmis niður í Skeifu þar sem voru krakkar sem voru í neyslu og eru enn þá í dag að hanga þar og í Mjóddinni og allt þetta, Kringlan á matsölustöðunum og svona. Þetta er bara eins í dag,“ segir hún.

„Úrræðin hafa heldur ekkert breyst. Mig langar stundum að blóta og segja eitthvað en ég ætla ekki að gera það. En það hefur ekkert breyst. Ekki neitt.“

Hildur heldur úti Facebook-síðunni Forvörn gegn fíkniefnum. Þar deilir hún ýmsum fróðleik fyrir ungmenni og foreldra ásamt því að taka við bókunum á fyrirlestrum.

Smelltu hér til að horfa á viðtalið við Hildi Hólmfríði í heild sinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert