Mjög skilvirkt og með því betra á heimsvísu

Jodie Foster í sjónvarpsþáttunum True Detective sem voru teknir upp …
Jodie Foster í sjónvarpsþáttunum True Detective sem voru teknir upp hérlendis.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir kerfið sem snýr að endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar á Íslandi vera mjög skilvirkt og með því betra sem gerist á heimsvísu. Það skili miklum umsvifum inn í hagkerfið.

Vísar hún þar í nýlega úttekt breska ráðgjafarfyrirtækisins Olsberg SPI um efnahagslegan ávinning af kerfinu. Einnig má lesa samantekt á íslensku um helstu niðurstöður. 

Taka meira pláss 

„Ef við lítum á þetta í stóra samhenginu, þá er það þannig að hagvöxturinn á þessu tímabili síðustu þrjú ár hefur verið samtals 23% og einhvers staðar frá kemur hann,” segir Lilja Dögg um hagvöxtinn hérlendis og bætir við að skapandi greinar eigi sinn þátt í honum. Þær séu farnar að taka meira pláss.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Endurgreiðsluhlutfallið hækkaði í 25% árið 2016 og fór svo upp í 35% árið 2022, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um stærð verkefna.

„Við erum hins vegar meðvituð um að við viljum að umsvifin vaxi hægt og örugglega. Það er ljóst að þegar við vorum að gera þessa kerfisbreytingu að það yrðu strax ákveðin áhrif en það hefði mögulega ekki verið þannig nema að því gefnu að við erum með svo fært kvikmyndagerðarfólk á Íslandi. Þú getur ekki farið í svona nema það sé góður grunnur,” bætir hún við.

Skilvirkar greiðslur og traust 

Spurð segir hún ekki standa til að hækka endurgreiðsluhlutfallið enn meira en tekur fram Íslandi hafi komið mjög vel út í úttekt sem var gerð á samkeppnishæfni kerfisins.

„Það þykir mjög gott bæði vegna þess að greiðslur eru skilvirkar, skilyrðin eru gagnsæ og einföld og svo bera þeir sem eru að fjárfesta í kvikmyndagerð traust til stjórnvalda,” segir hún og nefnir að því sé brýnt að kerfið festi sig í sessi. Slíkt búi til fyrirsjáanleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert