Lánastofnanir þurfa að koma að borðinu

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra segir þá lánveitendur sem veittu lán eða veð til fyrirtækja í Grindavík þurfa að meta áhættu sína og ábyrgð. Mikilvægt sé að þessir lánveitendur komi að því að fara að greina stöðuna.

Þetta kom fram í máli hans í óundirbúnum fyrirspurnartíma þegar rætt var um aðgerðir fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki í Grindavík.

Það var Guðbrandur Einarsson, þingmaður Viðreisnar, sem setti fram fyrirspurn til ráðherra. Sagði hann fyrirtækjaeigendur í Grindavík vera í hreinni örvæntingu og ráða illa við stöðuna. Eigið fé fyrirtækjanna að étast upp og þrátt fyrir rekstrarstuðning dugi hann bara fyrir launum en ekki afborgunum lána og vaxta.

Spurði hann ráðherra út í vinnu stýrihóps ráðuneytisins sem nú skoðar málefni fyrirtækja í Grindavík og hvort tekið yrði tillit til óska eigenda og forsvarsmanna fyrirtækjanna.

Staðan ólík á milli fyrirtækja

Tók Sigurður Ingi undir með Guðbandi um hversu slæm óvissan væri fyrir fyrirtækin. Sagði hann rétt að fjöldi fyrirtækja væri skuldsett, en allur gangur væri á í hvaða mæli það væri.

„Á sama hátt er nokkuð augljóst að þeir sem hafa veitt veð og lán í þeim fyrirtækjum hljóta að þurfa að meta sína áhættu og sína ábyrgð á sama hátt og þá með þeim eigendum sem þar eru. Ég held að það sé mikilvægt að það verði hluti af þessu ferli að menn fari í að reyna að greina stöðuna. Hún er það ólík að hún er nánast ólík frá einu fyrirtæki til annars,“ sagði Sigurður Ingi þegar hann kallaði eftir aðkomu lánastofnana.

Sagði hann ekki von á skýrslu starfshópsins í þessari viku, en mögulega kæmu einhverjar tillögur í næstu viku eða byrjun maí. „En ég ítreka að þeir sem hafa veitt veð og lán til þessara fyrirtækja hljóta auðvitað fyrst að þurfa líka að meta sína áhættu og sína ábyrgð með eigendum fyrirtækjanna,“ sagði Sigurður Ingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert