„Við erum ekki að refsa fólki fyrir að vinna“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson kynnti breytingarnar í Safnahúsinu.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson kynnti breytingarnar í Safnahúsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er gríðarlega mikið réttlætismál,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, er hann kynnti viðamiklar breytingar á örorkulífeyriskerfinu í Safnahúsinu fyrir hádegi.

Meðal þeirra breytinga sem voru kynntar voru hærri frítekjumörk. Fólk sem fær greidd­an ör­orku­líf­eyri má í nýju kerfi hafa 100.000 kr. í tekj­ur á mánuði án þess að greiðslur til þess lækki. Fólk sem fær greidd­an hluta­ör­orku­líf­eyri og er í hluta­starfi get­ur haft 350.000 kr. í tekj­ur á mánuði án þess að greiðslur til þess lækki.

Guðmundur Ingi lýsti breytingunni sem svokölluðum leikbreyti (e. Game changer). Með þessu væri ríkið sannarlega að aðstoða fólk við að komast aftur út á vinnumarkaðinn ef það gæti unnið og vinnu væri að fá.

„Við erum ekki að refsa fólki fyrir að vinna,“ sagði Guðmundur og bætti við:

„Við erum að gera fólki kleift að taka skref út á vinnumarkaðinn en þar með erum við ekki að segja að við ætlum að pína öll út á vinnumarkaðinn, bara alls ekki. Því það eru ekki öll sem geta unnið og það þarf að taka vel utan um þann hóp líka og það gerum við með þessum breytingum.“

Mestu og „bestu“ breytingarnar

Guðmundur Ingi tók einnig fram að breytingarnar byggðu ekki á hinu svokallaða breska starfsgetumati.

„Við erum að horfa mun víðar á hlutina heldur en gert hefur verið í Bretlandi,“ sagði Guðmundur og bætti við að öll þau sem væru á örorku núna myndu færast í nýtt kerfi og vera áfram á örorku.

„Þetta er gríðarlega mikilvægt vegna þess að við erum ekki að ætlast til þess að fólk fari aftur í mat sem komið er á örorku nú þegar,“ sagði Guðmundur Ingi og bætti síðar við:

„Það hefur verið sagt að þetta séu einar mestu breytingar sem verið hafa gerðar á örorkulífeyriskerfinu frá upphafi. Ég er sammála því en ég vil líka meina að þetta séu bestu breytingar sem lagðar hafa verið til og vil vinna að því að við náum að klára þetta fyrir fólkið í landinu, fyrir örorkulífeyrisþega og það er það sem við erum að vinna að.“

Flókið og ógagnsætt

En hvers vegna að gera þessar viðamiklu breytingar?

Guðmundur segir kerfið í sinni núverandi mynd vera flókið og ógagnsætt, litlir hvatar séu til atvinnuþátttöku og að mörg tækifæri séu fólgin í því að koma í veg fyrir að fólk endi ótímabært í örorku.

Nú þegar hafi árangur náðst til að mynda með aukinni áherslu á endurhæfingu. Hefur nýgengi örorku samhliða þessari breytingu lækkað.

Segir Guðmundur mikilvægt að grípa fyrr inn í þegar fólk veikist, slasast eða verður fyrir áfalli.

„Okkur er að takast að koma fleirum aftur út á vinnumarkaðinn og það er gríðarlega jákvætt.“

Taka betur utan um þá sem eru að „ping-ponga“ í kerfinu

Breytingarnar á örorkulífeyriskerfinu eiga að fela í sér bætta þjónustu, aukna samvinnu í endurhæfingu, bætt kjör fólks, einfaldara greiðslukerfi og mikilvæga hvata til atvinnuþátttöku.

„Með frumvarpinu og þeim lagabreytingum sem þar eru lagðar til, erum við að hvetja til þess, eða við erum að skylda þá þjónustuaðila sem sinna endurhæfingu í dag, til þess að vinna meira saman. Til þess að taka betur utan um þá einstaklinga sem eru að ping-ponga í kerfinu, á milli atvinnutengdrar og heilbrigðistengdrar endurhæfingar svo dæmi sé tekið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka