„Enginn veit sína ævi fyrr en öll er

Helga Þóris­dótt­ir mætir í Hörpu og skilar inn framboði sínu …
Helga Þóris­dótt­ir mætir í Hörpu og skilar inn framboði sínu til embættis forseta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Enginn veit sína ævi fyrr en öll er. Þetta er ekki eitthvað sem ég hafði ákveðið þegar ég var kornung. En ég finn fyrir gríðarlegum stuðningi landsmanna,“

segir Helga Þórisdóttir sem skilaði inn undirskriftalistum fyrir forsetaframboð sitt í Hörpu í dag.Hún segir fólk hafa hvatt hana áfram þrátt fyrir að hún hafi hvorki haft samfélagsmiðla né verið í stjórnmálum fyrir um mánuði síðan.

Helga hefur starfað sem forstjóri Persónuverndar.

„Í opinbera geiranum vinnur maður verk sín frekar hljóðlega og því er það afar ánægjulegt að hafa fengið þennan stuðning frá fólki sem vill reynslu, yfirvegun og þekkingu á Bessastaði,“ segir Helga.

Nú mælist þú með um 1% fylgi. Hvernig ætlar þú að ná því upp?

„Ég geri bara þá kröfu að fjölmiðlar landsins sýni jafnræði eftir að erum orðnir löglegir frambjóðendur. Þannig að við fáum tækifæri til að kynna okkur. Þegar maður er ekki í þeirri stöðu að vera heimsþekktur á Íslandi og á kannski fyrir vikið ekki eins stóran aðdáendahóp á Íslandi. En ég trúi því og heyri það á meðal fólks að fólk vill heyra mína rödd,“ segir Helga.

Hún segir að hún muni koma með heiðarleika staðfestu og reynslu í embættið. Hún sé með þrjátíu ára reynslu úr opinbera geiranum. Hún hefur verið í starfi hjá ríkissaksóknara, á nefndarsviði Alþingis, EFTA í Brussel, menntamálaráðuneytinu, hjá Lyfjastofnun og nú síðast í rúm átta ár sem forstjóri Persónuverndar.

„Ég er hafsjór af reynslu og þekkingu. Gríðarleg erlend samskipti og reynsla af því. Síðan er ég tungumálamanneskja með ensku, dönsku og frönsku og svo er ég manneskja sem getur sett sig í spor annarra. Svo þykir mér vænt um annað fólk,“ segir Helga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert