Sunna Lind hreppti Morgunblaðsskeifuna

Sunna Lind Sigurjónsdóttir frá Efstu-Grund undir Eyjafjöllum var himinlifandi með …
Sunna Lind Sigurjónsdóttir frá Efstu-Grund undir Eyjafjöllum var himinlifandi með góðan árangur í vetur. Morgunblaðið/Theodór Kristinn Þórðarson

„Það var mikill heiður að fá Morgunblaðsskeifuna og kom mér á óvart,“ sagði Sunna Lind Sigurjónsdóttir frá Efstu-Grund undir Eyjafjöllum, sem hlaut Morgunblaðsskeifuna í gær við hátíðlega athöfn í hestamiðstöð Landbúnaðarháskólans á Mið-Fossum, en forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson afhenti henni skeifuna.

Sól og blíða var í Borgarfirðinum í gær og var margt gesta við athöfnina, að sögn Rósu Bjarkar Jónsdóttur markaðs- og kynningarstjóra Landbúnaðarháskóla Íslands að Hvanneyri.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhenti Sunnu Lind Morgunblaðsskeifuna fyrir …
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhenti Sunnu Lind Morgunblaðsskeifuna fyrir árið 2024 í gær. Morgunblaðið/Theodór Kristinn Þórðarson

Morgunblaðsskeifan er veitt þeim nemanda skólans sem náð hefur bestum samanlögðum árangri í áfanganum reiðmennsku III og í frumtamningarprófi og er í 68. sinn sem Morgunblaðið veitir þessi eftirsóttu verðlaun, sem voru fyrst veitt árið 1958.

Í öðru og þriðja sæti voru Jessinia Wallach og Bragi Geir Bjarnason. Eiðfaxabikarinn og ásetuverðlaunin í ár hlaut Jessinia Wallach. Framfaraverðlaun Reynis hlutu tveir keppendur, þau Heiðrún Hrund Sigurðardóttir og Jón Halldór Torfason. Gunnarsbikarinn hlaut síðan Sunna Lind Sigurjónsdóttir og Kveikur frá Efstu-Grund, en í öðru sæti var Hildur Ósk Þórsdóttir og Sindri frá Hrísdal og þriðja sæti Jessinia Wallach og Fláki frá Giljahlíð.

Hér eru verðlaunahafar á hópmynd. Frá vinstri: frá vinstri: Sunna …
Hér eru verðlaunahafar á hópmynd. Frá vinstri: frá vinstri: Sunna Lind Sigurjónsdóttir, Lára Guðnadóttir, Heiðrún Hrund Sigurðardóttir, Hildur Ósk Þórsdóttir, Jessina Wallach, Jón Halldór Torfason og Bragi Geir Bjarnason. Morgunblaðið/Theodór Kristinn Þórðarson

Alin upp á hestbaki

Sunna Lind var efst í reiðmennsku III á hestinum Kveik frá Efstu-Grund, en í frumtamningaprófinu var hún að temja Petru frá Ytri-Skógum. „Það gekk ótrúlega vel með Petru eftir að ég var búin að ná trausti hennar, en hún var svolítið smeyk fyrst, eins og oft er fyrst með tryppin. Ég vil þakka eigendum og ræktendum fyrir, og svo fékk ég góð ráð líka frá vinum mínum á Hvanneyri. Síðan skipta hestarnir höfuðmáli til þess að ná svona góðum árangri. Kveikur er frábær reiðhestur og síðan er Petra  mikið gæðingsefni,“ segir Sunna Lind, sem stefnir á að halda tamningum áfram í sumar eftir lokaprófin og fara síðan í framhaldsnám í búvísindum.

Sunna Lind segir að hestamennskan sé hennar líf og yndi. „Ég er náttúrulega eiginlega alin upp á hestbaki,” segir hún og segir að eftir hátíðlega verðlaunaafhendinguna hafi hún farið heim til Efstu-Grundar og beint í hesthúsið, að sjálfsögðu.

Sunna Lind segir hestamennskuna henni í blóð borna, enda nánast …
Sunna Lind segir hestamennskuna henni í blóð borna, enda nánast alin upp á hestbaki. Morgunblaðið/Theodór Kristinn Þórðarson

Höfðingjar heim að sækja

Guðni forseti var hress að venju og óskaði öllum á hátíðinni gleðilegs sumars. Hann kvaðst hafa notið þess að koma að Hvanneyri undanfarin ár og vildi nota tækifærið til að þakka þá gestrisni og góðvild sem hann hefði notið undanfarin nær átta ár sem hann hefði gengt forsetaembættinu, „reyndar ekki bara hér í Borgarfirði heldur á Íslandi öllu“.

Guðni hefur dvalið í Reykholti öðru hvoru við rannsóknir og skrif og hann hyggst halda því áfram eftir að hann lætur af starfi sem forseti. Enda búist hann við því að þar yrðu þeir sömu höfðingjar heim að sækja hér eftir sem hingað til.

Guðni forseti var alþýðlegur að venju og nokkrir fengu að …
Guðni forseti var alþýðlegur að venju og nokkrir fengu að taka myndir með honum á hátíðinni. Morgunblaðið/Theodór Kristinn Þórðarson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert