Mesta truflun á netþjónustu frá upphafi

Tilgangur aðgerða gegn netþjónafyrirtækjunum er að reyna að gera mótmælendunum …
Tilgangur aðgerða gegn netþjónafyrirtækjunum er að reyna að gera mótmælendunum erfitt fyrir við að skipuleggja sig. OSMAN ORSAL

Aðgerðir egypskra stjórnvalda til að stöðva netþjónustu eru þær víðtækust í sögu netsins. Þær leiddu til þess að 97% af allri umferð um netið í Egyptalandi lagðist af.

Mótmælendur í Egyptalandi hafa margir hverjir notað netið og fjarskipti til að skipuleggja aðgerðir gegn stjórnvöldum. Til að reyna að gera mótmælendum erfitt fyrir ákváðu stjórnvöld að stöðva starfsemi fjögurra stærstu netþjónustufyrirtækja landsins. 

Rik Ferguson, sérfræðingur hjá Trend Micro, þriðja stærsta netöryggisfyrirtæki heims, segir að þessar aðgerðir eigi sér ekkert fordæmi. Þetta sé stærsta aðgerð af þessu tagi í sögu netsins.

Um 23 milljónir Egypta nota netið reglulega eða öðru hverju, en það eru um fjórðungur þjóðarinnar.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, og fleiri þjóðhöfðingjar hafa hvatt stjórnvöld í Egyptalandi til að kom á eðlilegri netþjónustu á ný og tryggja örugg fjarskipti, en miklar truflanir hafa líka orðið á fjarskiptaþjónustu eftir að mótmælin hófust.

Þessar aðgerðir egypskra stjórnvalda hafa ekki bara verið slæm fyrir almenning sem treystir á þessa þjónustu heldur hefur haft víðtæk áhrif á fyrirtæki í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert