Fiðruð formóðir grameðlunnar

Yutyrannus var uppi löngu áður en frænka hennar grameðlan kom …
Yutyrannus var uppi löngu áður en frænka hennar grameðlan kom fram á sjónarsviðið.

Fiðruð formóðir grameðlunnar er stærsta fiðraða dýrið sem lifað hefur á jörðinni, fyrr og síðar. Eðlan, sem kölluð er Yutyrannus, var uppi á krítartímabilinu, fyrir um 125 milljónum ára. Hún vó fullvaxin 1,4 tonn.

Tegundin er nú fyrst skilgreind sem slík en steingervingar af henni hafa fundist á þremur stöðum í Norðaustur-Kína. Frá uppgötvuninni er greint í nýjasta tölublaði vísindatímaritsins Nature. Kollvarpar hún fyrri kenningum um þróun og forfeður hinnar grimmu kjötætu grameðlunnar, Tyrannosaurus rex eða T.rex eins og hún er gjarnan kölluð á enskri tungu.

T.rex tilheyrir hópi risaðeðla sem kallast Tyrannosauroids. Þær voru uppi þar til fyrir um 65 milljónum ára er stór loftsteinn rakst á jörðina og gjörbreytti loftslagi hennar. Hingað til hafa forfeður þessara stóru eðla verið taldir smáir.

En nú hafa Xing Xu og samstarfsmenn hans við Kínverska vísindaháskólann í Peking rannsakað steingervingana þrjá í Kína og komist að öðru. Steingervingarnir eru af einu fullorðnu dýri og tveimur ungdýrum. Hefur fullorðna dýrið vegið að minnsta kosti 1,4 tonn.

Yutyrannus-eðlurnar eru nokkuð líkar T.rex en höfðu þrjár klær en T.rex tvær. En stærsta uppgötvunin hlýtur þó að vera sú að eðlan var fiðruð. Það gefa holur í húð hennar til kynna. Telja vísindamennirnir að fjaðrirnar hafi verið nokkuð langar og fíngerðar og virkað eins og einangrun fyrir dýrið. Þá er líklegt að fjaðrirnar hafi gegnt hlutverki við mökun og í slagsmálum - dýrin hafi þá ýft þær eins og hanar gera gjarnan.

Steingerð höfuðkúpa Yutyrannus-eðlunnar sem fannst í Kína.
Steingerð höfuðkúpa Yutyrannus-eðlunnar sem fannst í Kína. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert