Frá London til New York á klukkutíma

Þotan væri tvöfalt hraðari en Concorde þoturnar sálugu.
Þotan væri tvöfalt hraðari en Concorde þoturnar sálugu.

Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus hefur fengið einkaleyfi fyrir „ofurhröðu loftfarartæki“ sem virðist geta náð rúmlega fjórföldum hljóðhraða, samkvæmt upplýsingum frá bandarísku einkaleyfastofnuninni.

Einkaleyfið lýsir þotu sem fer tvöfalt hraðar en Concorde þoturnar sálugu, sem var sameiginlegt verkefni tveggja fyrirrennara Airbus, hins franska fyrirtækis Aerospatiale og breska Aerospace.

Samkvæmt útreikningum sérfræðinga bendir hraði þotunnar til þess að hún myndi ná að ferðast frá London til New York á aðeins einum klukkutíma. Í því felst töluverð framför frá tíma Concorde þotunnar, en það tók hana þrjá og hálfan klukkutíma að fara sömu leið.

Hefðbundnar farþegaþotur ættu heldur ekki möguleika í hina hljóðfráu þotu, en þær þurfa jafnan sjö eða átta klukkustundir til að ferðast yfir Atlantshafið á milli þessara stórborga.

Airbus telur að þotan muni einnig geta flogið frá París til San Francisco og frá Tókýó til Los Angeles á aðeins þremur tímum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert