Eldra fólki fjölgar en færri glíma við heilabilun

Þýska knattspyrnugoðsögnin Gerd Müller er einn þeirra fjölmörgu sem glíma …
Þýska knattspyrnugoðsögnin Gerd Müller er einn þeirra fjölmörgu sem glíma við alzheimer sjúkdóminn. AFP

Ekki er víst að þeim eldri borgurum eigi eftir að fjölga mikið sem glíma við minnisglöp á næstu árum þrátt fyrir það að fólk lifi lengur en áður var. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem fjallað er um í læknaritinu New England Journal of Medicine en hingað til hefur því verið haldið fram að því eldri sem við verðum því meiri líkur eru á heilabilun eins og minnisleysi og ruglingi í höfði okkar. 

Í rannsókninni er unnið með gögn úr hjartarannsóknum (Framingham Heart Study) en þeim hefur verið safnað saman allt frá fimmta áratugnum. Fylgt er eftir fyrsta hópnum sem kom í hjartarannsókn, börnum þeirra og afkomendum þeirra. Samkvæmt því virðist sem það sé frekar að draga úr minnisglöpum, að því er fram kemur í frétt Times. Ekki nóg með það heldur virðist sem það sama gildi um alla minnissjúkdóma, þar á meðal Alzheimer.

Rannsóknin nær til rúmlega 5.200 manns sem eiga það sameiginlegt að vera komnir yfir sextugt. Fólkið fór reglulega í heilarannsókn áratugum saman.

Dr. Sudha Seshadri, sem stýrði rannsókninni og starfssystkini hennar, komust að því að 20% færri glímdu við minnisglöp á hverjum áratug síðan á áttunda áratugnum, það er þeim fækkaði um 20% á hverjum áratug sem glímdu við minnisleysi. Þar hafði áhrif menntun viðkomandi en þeir sem höfðu lokið menntaskólanámi voru ólíklegri til þess að glíma við slíka sjúkdóma en aðrir. 

Að sögn Seshadri eru þetta merkar upplýsingar sem þarf að rannsaka betur en allt bendir til þess að eitthvað hafi gerst á undanförnum áratugum sem valdi því að minnissjúkdómar verða óalgengari meðal eldra fólks. Þetta gerist þrátt fyrir að offita og sykursýki 2 aukist að sama skapi en slíkir lífstílssjúkdómar geta aukið líkurnar á að fólk þjáist af minnisleysi, segir í frétt Time

Hér er hægt að lesa nánar um rannsóknina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert