Berglind töfrar fram vikumatseðilinn

Berglind Hreiðarsdóttir matar- og ævintýrabloggari býður upp á vikumatseðilinn sem …
Berglind Hreiðarsdóttir matar- og ævintýrabloggari býður upp á vikumatseðilinn sem er hinn girnilegasti og einstaklega fjölskylduvænn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Berglind Hreiðarsdóttir matar- og ævintýrabloggari á heiðurinn af vikumatseðlinum að þessu sinni. Berglind elskar að útbúa eitthvað gómsætt í eldhúsinu, ferðast og upplifa eitthvað nýtt. „Síðan mín hefur þróast mikið frá því ég opnaði bloggið árið 2012. Hún hefur farið frá því að vera kökublogg yfir í matarblogg og nú síðast ævintýrablogg, allt í bland. Fyrir utan þær uppskriftir sem ég set inn fyrir lesendur að njóta skrifa ég reglulega um ferðalög, gönguferðir, matsölustaði og önnur ævintýri. Ég sit sjaldnast auðum höndum og elska veisluhöld, matargerð og almennt bras. Því fannst mér tilvalið að sameina mín helstu áhugamál á einum stað því það er svo gaman að deila þeim með ykkur og gefa hugmyndir,“ segir Berglind og brosir.

Hjartað leiðir mann þangað sem maður á heima

Berglind hefur komið víða við í bloggi sínu en er líka vel menntuð og var að gera aðra hluti áður en hún fór að blogga um mat og kökur. „Ég er annars með meistaragráðu í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík og hafði unnið við mannauðsmál og verkefnastjórnun um árabil áður en ég sneri mér alfarið að blogginu fyrir nokkrum árum. Það gerðist eiginlega bara að sjálfu sér þótt leiðin hafi ekki endilega legið þangað. Ætli þetta sé ekki þannig að hjartað leiðir mann þangað sem maður á heima hverju sinni. Hér er ég síðan enn og á meðan það er gaman þá verð ég það. Hvað framtíðin ber í skauti sér veit síðan enginn.“

Fjölskylduvænn og girnilegur vikumatseðill

Síðustu vikur hafa verið annasamar hjá Berglindi og eitthvað er hún að bralla. „Síðustu vikur hef ég verið að vinna að skemmtilegu verkefni sem lítur brátt dagsins ljós ásamt því sem ég hef verið upptekin af því að skipuleggja ferðalög. Á döfinni eru því fullt að nýjum gómsætum uppskriftum og ævintýrum sem ég mun án efa leyfa ykkur að fylgjast með. Á haustin dett ég í kósígír, bæði í matargerð sem og öðru og því er matseðilinn fyrir vikuna í þeim anda,“ segir Berglind en hún er búin að setja saman fjölskylduvænan og girnilegan matseðil fyrir vikuna sem á vel við haustið og mun án ef gleðja marga matgæðinga.

Guðdómlega góður lax rjómasósu.
Guðdómlega góður lax rjómasósu. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Mánudagur – Lax í rjómasósu
„Það er alltaf gott að byrja nýja viku á fiski. Hér erum við með lúxus útgáfu af laxi sem svíkur engan.“

Lax í rjómasósu með sólþurrkuðum tómötum

Truflað Big Mac Tacos sem tryllir bragðlaukana.
Truflað Big Mac Tacos sem tryllir bragðlaukana. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Þriðjudagur – Big Mac Tacos
Taco Tuesday“ segja þeir einhvers staðar svo það er tilvalið að prófa mismunandi útfærslur af taco á þriðjudögum. Ég prófaði „Big Mac Tacos“ æðið um daginn og verð að segja það kom skemmtilega á óvart, virkilega gott, einfalt og fljótlegt svo ég mæli með að þið prófið.“

Big Mac Tacos

Ljúffengt spaghettí carbonara að hætti Berglindar.
Ljúffengt spaghettí carbonara að hætti Berglindar. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Miðvikudagur – Spaghettí - carbonara
„Dætur mínar elska þennan rétt og þetta er einn af vinsælustu réttum heims myndi ég segja. Það er lítið mál að útbúa hann heima og miðvikudagar fullkomnir pastadagar.“

Spaghetti carbonara að hætti Berglindar

Ofnbökuð tómatsúpa í takt við árstíðina, haustið.
Ofnbökuð tómatsúpa í takt við árstíðina, haustið. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Fimmtudagur – Ofnbökuð tómatsúpa sem gleður
„Fimmtudagar verða einhverra hluta vegna oft snarldagar á okkar heimili og þá er súpa tilvalinn kostur. Það er mikið til af matarmiklum og góðum súpum og stundum stytti ég mér leið með súpubréfum sem er snilld líkt og hér.“

Föstudagspítsan klár, ein með öllu.
Föstudagspítsan klár, ein með öllu. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Föstudagur - Pítsaveisla
„Oftar en ekki er pítsa á þessu heimili á föstudögum. Hér kemur ein með öllu sem er dásamlega góð.“

Ein með öllu

Syndsamlega góður kjúklingur með sveppasósu.
Syndsamlega góður kjúklingur með sveppasósu. Ljósmynd/Berglind Hreiðars

Laugardagur – Kjúklingur með sveppasósu
„Þessi réttur er einn af okkar uppáhalds, líka svo einfalt að henda öllu í einn pott og láta malla í ofninum! Við gerum ekki alltaf sósu með honum en þegar það er helgi eða við viljum smá lúxus tekur sveppasósan hann á næsta stig og þið verðið ekki svikin.“

Kjúklingur með sveppasósu sem bræðir öll matarhjörtu

Hægeldað naut með dýrðlegri rauðvínssósu fyrir sælkera sem kunna að …
Hægeldað naut með dýrðlegri rauðvínssósu fyrir sælkera sem kunna að njóta. Ljósmynd/Berglind Hreriðars

Sunnudagur – Hægeldað naut með rauðvínssósu
„Þetta er ekta sunnudagsmatur! Við elskum þennan rétt og hann klárast undantekningarlaust upp til agna.“

Hægelda naut í rauðvínssósu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert