Lífsorku-djús fyrir líkama og sál

Kristjana Dröfn Haraldsdóttir, ávallt kölluð Jana, sviptir hulunni af Lífsorku-djúsnum …
Kristjana Dröfn Haraldsdóttir, ávallt kölluð Jana, sviptir hulunni af Lífsorku-djúsnum sínum til að hressa upp á ónæmiskerfið og ná sér í auka orku. Samsett mynd

Nú þegar tekur að hausta er ágætt  hressa aðeins upp á ónæmiskerfið og endurnæra kroppinn. Sumir fara á hreint fæði, aðrir í safahreinsun svo fátt sé nefnt. Kristjana Dröfn Haraldsdóttir, ávallt kölluð Jana, er ein þeirra sem fær sér góðan djús til að hressa upp á ónæmiskerfið og ná sér í auka orku. Jana er heilsumarkþjálfi og jógakennari og rekur fyrirtækið Nærandi líf þar sem hún stendur meðal annars fyrir námskeiðum og fyrirlestrum um hvernig má læra að slaka á, endurstilla og endurnæra taugakerfið.

Einn djús reynst mér vel

Jana hefur líka mikinn áhuga á mataræði og hvernig má gefa líkamanum góða og endurnærandi orku. „Ég hef undanfarin ár verið hrifin að fá mér djúsa eða þeyting með minni daglegri næringarþörf. Einn djús hefur reynst mér ákaflega vel en það er Lífsorku-djúsinn minn. Ég nýti mér hann alveg helling,“ segir Jana.

Aðspurð segist Jana fá sér djúsinn eftir syndir sínar í áti á kræsingum eins og brauði. „Mér finnst agalega gott að drekka djúsinn þegar ég hef verið að borða of mikið af brauði eða jafnvel aðeins of mikið af sykri. Já, við erum öll einhvern tímann þarna. Munið bara að við dæmum engan og hvað þá okkur sjálf. Mig langar að nefna að ég elska brauð. En til þess að viðhalda mínu orkuflæði er brauð kannski ekki það allra besta fyrir mig. Brauðátið mitt er kannski tilefni í annan pistil,“ segir Jana og hlær.

Djús til að gefa meltingunni hvíld

Jana segist fá sér þennan djús til að rétta sig af. „Gefa meltingu hvíld. Hann er líka góður ef ég hef verið undir mikilli streitu og álagi. Stundum þegar ónæmiskerfið mitt gefur eftir við að verja mig frá allskonar pestum og ég fæ kannski eitt stykki flensu eða kvef hef ég nýtt mér Lífsorku-djúsinn við að endurnæra mig og byggja mig upp.“

Lífsorku-djúsinn er stútfullur af næringu. Hann er afeitrandi og styður við meltingarkerfið. „Drykkurinn samanstendur af grænmeti og epli. Á haustin höfum við aðgang að meira úrvali af íslensku og fersku grænmeti Til að mynda keypti ég um daginn íslenskt sellerí sem er guðdómlegt. Líka hef ég keypt íslenskar gulrætur og auðvitað gúrkan sem er alltaf til á öllum árstíðum hér á Íslandi. Mikilvægt er þegar þú ætlar að gera þennan drykk er kaupa lífrænt og hreint hráefni.

Eiginleikar hráefnisins í Lífsorku-djúsnum eru eftirfarandi:

  • Rauðrófur: Bæta súrefnisupptöku í líkamanum og eru trefjaríkar. Þær innihalda steinefni og vítamín eins og C- og B-vítamín Fólat. Rauðrófur eru háar í sykri og kolvetnum og henta því vel fyrir átök eins og hreyfingu og göngur.
  • Gulrætur: Í gulrótum er litarefnið karó­tín sem umbreytist í A-vítamín. Gulrótin er rík af steinefnum eins kalíum og inniheldur C- vítamín. 
  • Spínat: Dökkt blaðgrænmeti eins og spínat er mjög ríkt af járni en hins vegar er oxalsýra í spínati sem hindrar upptöku á járni. Þannig að hafa C-vítamín með þegar þú borðar spínat er mjög gott. Til dæmis sítrónusafa. Spínat er ríkt af andoxunarefnum, A-vítamíni, C-vítamíni, K-vítamíni, magnesíum og fólínsýru, B-2 og B-6 og E- vítamíni.  Í grænkáli er minna oxalsýra.
  • Sellerí: Blöðin innihalda A-vítamín en stikarnir innihalda B-1, B-2, B-6 og C-vítamín og mikið af kalíum, magnesíum, járni, fosfór, natríum, fólinsýru og kalki. Einnig er sellerí ríkt af trefjum.
  • Hvítlaukur: Ríkur af steinefnum eins sinki og kalsíum. Hvítlaukur inniheldur E-vítamín. Auk þess inniheldur hvítlaukur efnasamband sem er sveppa og bakteríudrepandi. Hvítlaukur innheldur einnig Selen sem er snefilsteinefni. Selen er mikilvægt fyrir briskirtil.
  • Epli: Rík af trefjum, C- vítamíni og járni. Epli er ávöxtur og inniheldur ávaxtasykur. Epli innihalda „pektín“ sem eru trefjar sem eru vatnsleysanleg. En Pektín styður við að fækka slæmum bakteríum í þörmunum og þannig geta góðu bakteríurnar fjölgað sér.
  • Engifer: Bólgueyðandi og sótthreinsandi. Gingerol í engifer getur framleitt andoxunarefni ensím þegar það fer inn í líkamann.

Næsta skref er að prófa djúsinn og finna áhrifin. 

Lífsorku-djúsinn

  • 2 stk. gulrætur
  • 1 stk. rauðrófa (lítil)
  • 1 stk. hvítlaukur
  • 2 stilkar sellerí
  • 1 stk. epli (meðalstórt)
  • Lúka af grænkáli eða spínati
  • Smá bútur af rifnum engifer
  • 1/3 safi úr ferskri sítrónu

Aðferð:

  1. Byrjið á því að skola allt hráefnið.
  2. Ef þið er ekki með lífrænt, afhýðið þá eplið, engiferið og rauðrófuna. Nóg að skola annað.
  3. Afhýðið hvítlaukinn.
  4. Setjið allt sett í blandara eða djúsvél.
  5. Í þessum drykk er ekki hratið drukkið.
  6. Ef þið setjið í blandara þurfið þið að sía hratið frá með síupoka.
  7. Berið fram í þykku og góðu glasi og njótið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert