Ísblóm sem býður upp á einstakan bragðheim

Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri Emmessís, og Kristín María Dýrfjörð, markaðsstjóri …
Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri Emmessís, og Kristín María Dýrfjörð, markaðsstjóri Te & Kaffi, eru alsæl með samstarfið og nýja Ísblómið. Ljósmynd/Emmessís

Ísblómin gómsætu frá Emmesís eru klassískt góðgæti sem lifað hafa með þjóðinni lengi. Nú hefur spennandi samstarf Emmessíss við Te & Kaffi skilað nýrri og einstakri útgáfu af þessu uppáhaldi þjóðarinnar. Við framleiðsluna á Te & Kaffi Ísblóminu er alvöru kaffi blandað saman við ekta rjómaís og útkoman er ekkert annað en einstakur bragðheimur. Mjúk og ljúffeng karamella setur svo punktinn yfir i-ið fræga.

Samstarf í þágu neytenda

„Það er bæði gaman og gefandi að taka þátt í svona vinnu þar sem tvö rótgróin íslensk fyrirtæki koma saman og skapa eitthvað alveg nýtt, vöru sem segja má að sé þróuð eftir smekk íslenskra neytenda því við erum auðvitað að vinna með lykileiginleika vara sem hafa verið uppáhald þjóðarinnar lengi,“ segir Kristján Geir Gunnarsson, framkvæmdastjóri Emmessíss. „Emmessís er auðvitað ekkert án dyggra neytenda og því er neytandinn ávallt í forgrunni í allri vöruþróun. Þessi vara og samstarfið við Te & Kaffi fellur því vel að okkar stefnu,“ bætir Kristján Geir við og upplýsir okkur um leið um það að frekari nýjunga sé að frétta úr herbúðum Emmessíss á næstunni: „Við erum á fullu í vöruþróun þessa dagana og erum spennt að kynna afraksturinn fyrir þjóðinni á næstu vikum og mánuðum.“ Kristín María Dýrfjörð, markaðsstjóri Te & Kaffi, ber samstarfinu við Emmessís vel söguna: „Það er sannarlega skemmtilegt að tvinna saman ólíkar og rótgrónar vörur og skapa þannig eitthvað nýtt og spennandi fyrir neytendur. Ísblómin og kaffið okkar hafa fylgt þjóðinni lengi og því er gaman að bjóða vöru þar sem þessar vörur eru í nýjum hlutverkum,“ segir Kristín.

Rík áhersla á gæðamál

Emmessís hefur allt frá stofnun fyrirtækisins árið 1960 lagt ríka áherslu á gæðamál í framleiðslu sinni og síðastliðið haust tók félagið enn eitt stóra skrefið hvað þau mál varðar. Þá hlaut fyrirtækið nefnilega FSSC-matvælaöryggisvottunina en hún tryggir að framleiðsla og öll aðföng fyrirtækisins þurfa að standast ýtrustu gæðakröfur með hag neytenda í huga. FSSC-vottunin er sannarlega fjöður í hatt félagsins því hana er erfitt að öðlast og ekki eru mörg íslensk matvælafyrirtæki sem státa af henni. Einnig má geta þess að Emmessís hefur ítrekað hlotið hæstu einkunn frá heilbrigðiseftirlitinu fyrir vörur sínar og aðbúnað við framleiðsluna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert