Líkir forseta Kólumbíu við kjölturakka

Hugo Chaves, forseti Venesúela, var harðorður í garð starfsbróður síns í Kólumbíu í dag og sagði að það væri hætta á að stríð brjótist út. Chaves vísar þar til þess að næst æðsti yfirmaður marxísku skæruliðasamtakanna Farc féll í átökum við stjórnarherinn í Kólumbíu í gær ásamt 16 öðrum liðsmönnum Farc.

Chaves hefur sent þúsundir hermanna að landamærum ríkjanna og fjölda skriðdreka auk þess sem hann lét loka sendiráði Venesúela í höfuðborg Kólumbíu, Bogota. Segir hann að stjórnvöld í Venesúela muni ekki líða árásir líkt og voru gerðar í gær gegn Farc.

Chaves kallaði Alvaro Uribe, forseta Kólumbíu, glæpamann og sagði hann kjölturakka stjórnvalda í Washington. Að  sögn Chaves er ekki hægt að kalla árásina í gær neitt annað en kaldrifjað morð.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert