Qureia segist halda fast við afsögn sína

Ahmed Qureia kemur af fundi í Ramallah á Vesturbakkanum í …
Ahmed Qureia kemur af fundi í Ramallah á Vesturbakkanum í dag. AP

Ahmed Qureia, forsætisráðherra heimastjórnar Palestínu, sagði ríkisstjórn sinni í dag, að hann væri ákveðinn í að láta af embætti og ætli ekki að draga uppsögn sína til baka. Qureia lagði uppsögn sína fram á fundi með Yasser Arafat, forseta heimastjórnarinnar, í morgun en Arafat féllst ekki á hana. Jamal Shobaki, ráðherra í heimastjórninni, sagði að stjórnin muni koma saman aftur á mánudag til að ræða pólitísku stöðuna. Arafat sat ekki ríkisstjórnarfundinn í dag.

„Það er ófremdarásand. Öryggismálin eru í upplaus," sagði Qureia við blaðamenn þegar hann kom af ríkisstjórnarafundinum.

Í gær rændu vopnaðir menn lögreglustjóranum á Gasasvæðinu og kröfðust þess að honum yrði vikið úr embætti vegna spillingar. Arafat féllst á það og þá var lögreglustjóranum sleppt. Sex öðrum mönnum var rænt á Gasasvæðinu í gær en þeim var sleppt síðar um daginn. Í morgun tilkynnti Arafat að lögreglustjóranum hefði verið vikið úr embætti og að stofnunum öryggisþjónustu heimastjórnarinnar yrði fækkað úr átta í þrjár.

Mannránin í gær eru sögð endurspegla vaxandi andstöðu herskárra Palestínumanna gegn Arafat og reyna vopnaðir hópar og samtök að styrkja stöðu sína á Gasasvæðinu áður en Ísraelsmenn kalla hermenn sína þaðan og yfirgefa gyðingabyggðir. Samkvæmt áætlun Ariels Sharons, forsætisráðherra Ísraels, á það að gerast fyrir árslok 2005. Heimastjórnin lýsti í morgun yfir neyðarástandi á Gasasvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert