Óviðunandi að vísa blaðamönnum frá Najaf

Stórt reykský sveif yfir hinum stóra grafreit í Najaf í …
Stórt reykský sveif yfir hinum stóra grafreit í Najaf í gær. AP

Alþjóðleg réttindagæslusamtök blaðamanna, Blaðamenn án landamæra (RSF), fordæmdu seint í gærkvöldi ákvörðun írösku stjórnarinnar að vísa blaðamönnum frá hinni helgu borg Najaf, þar sem hart hefur verið barist að undanförnu. „Við fordæmum þessa óviðunandi aðgerðir sem stöðva flæði upplýsinga. Þetta á sér engin fordæmi í Írak,“ sagði í yfirlýsingu samtakanna, sem eru frönsk að uppruna. Í yfirlýsingunni voru írösk stjórnvöld hvött til þess að breyta ákvörðuninni þegar, en tilkynnt var um hana einum degi eftir að yfirvöld í Bagdad lýstu yfir stórsókn í Najaf gegn stuðningsmönnum sjíaklerksins Moqtada Sadr.

„Vera blaðamanna á staðnum er bráðnauðsynleg, því verstu ódæðisverkin eru alltaf framin þar sem engin vitni eru til staðar,“ sagði Robert Mendar, framkvæmdastjóri RSF. „Blaðamennirnir verða sjálfir að fá að ákveða hvort þeir ákveða að yfirgefa svæðið af öryggisástæðum,“ bætti hann við.

Ghaleb al-Jazairi, lögreglustjóri í Najaf, sagði að blaðamenn yrðu að yfirgefa borgina af öryggisástæðum. Hann sagðist hafa fengið upplýsingar um að þeir væru skotmark manna er hygðust beita stórri bílasprengju gegn þeim.

Þrír bandarískir hermenn létust í bardögum við uppreisnarmenn úr röðum sjíta í Najaf í gær, að því er Bandaríkjaher greindi frá í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert