Rússar tilbúnir til samstarfs við skæruliða

Shamil Basajev í Grozní 1999.
Shamil Basajev í Grozní 1999. AP

Rússar eru tilbúnir til samstarfs við vopnaða hópa skæruliða í leitinni að leiðtogum aðskilnaðarsinna í Tétsníu, þeim Shamil Basajev Aslan Maskhadov, sem stjórnvöld í Moskvu segja að hafilagt á ráðin um gíslatökuna í barnaskólanum í Beslan. Rússneska fréttastofan Interfax greindi frá þessu í dag.

Talsmaður rússnesku leyniþjónustunnar, FSB, tjáði Interfax, að „meðlimir ólöglegra, vopnaðra hópa“ gætu átt rétt á að fá þær tíu milljónir dollara sem rússnesk stjórnvöld hafa lagt til höfuðs Basajev og Maskhadov. „FSB er tilbúin til samstarfs með hverjum sem er, þar á meðal meðlimum ólöglegra, vopnaðra hópa.“

Talsmaður FSB gaf ekki frekari upplýsingar um hvaða tilteknu hópa hann væri að vísa til, en skilja má ummæli hans sem svo, að tétsenskir uppreisnarmenn sem myndu koma upp um leiðtoga sína myndu fá verðlaun í stað þess að hljóta refsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert