Tala þeirra Norðmanna sem fórust lækkar

Tala þeirra Norðmanna, sem fórust í náttúruhamförunum í Asíu 26. desember, lækkaði úr 16 í 12 í dag en norsk stjórnvöld viðurkenndu að upphaflega talan væri prentvilla. Norska ríkisstjórnin hefur sætt harðri gagnrýni fyrir það hve seint og illa hún brást við hamförunum þótt margir Norðmenn væru staddir á svæðinu.

Ansgar Gabrielsen, heilbrigðisráðherra, sagði við blaðamenn að um hefði verið að ræða prentvillu og því hefði talan nú breyst. Ekki var ljóst hvernig á þessari villu stóð.

Um tíma var talið að fjölda Norðmanna væri saknað á hamfarasvæðinu og sl. laugardag sagði Kjell Magne Bondevik, forsætisráðherra, að hugsanlega hefðu yfir þúsund Norðmenn farist. Í dag eru opinberar tölur þannig, að 12 létu lífið og 80 er saknað.

Listi yfir þá, sem saknað var, styttist verulega eftir að utanríkisráðuneytið fól ríkislögreglustjóraembætti landsins að fara yfir málið. Og eftir að lögreglan birti lista með nöfnum þeirra sem saknað var höfðu 195 af 275 manns á listanum samband og sögðust heilir á húfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert